Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri og þriðja í Súgandafirði – Veðurstofan fjallar um flóðin
Flóðin úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili eru með allra stærstu snjóflóðum sem fallið hafa á leiðigarða í heiminum
Snjóathugunarmenn og sérfræðingar Veðurstofunnar hafa í gær og dag unnið við mælingar á snjóflóðunum á Flateyri. Flóðin flæddu yfir leiðigarðana ofan Flateyrar á löngum köflum og mikinn flóðsnjó er að finna milli garðanna ofan þvergarðsins sem myndar tengingu á milli þeirra skammt ofan byggðarinnar. Neðan þvergarðsins eru flóðtungur innan við báða leiðigarðana sem hafa bæði kastast yfir leiðgarðana og einnig að einhverju leyti flætt yfir þvergarðinn eftir að hafa kastast yfir leiðigarðana ofar.
Útlínur flóðanna má sjá á kortinu hér að ofan. Rauða línan sýnir útlínur flóðsins sem féll 1995.
Það var flóðtungan innan við leiðigarðinn undir Innra-Bæjargili sem lenti á húsinu að Ólafstúni 14. Flóðin virðast hafa kastast yfir garðana á talsverðri ferð vegna þess að ofarlega á innri hlið varnargarðanna er óhreyfður snjór sem flóðin hafa ekki sópað með sér en neðar hafa þau streymt með jörðu og brotið gróður og eyðilagt skilti og önnur mannvirki sem þar var að finna. Skollahvilftarflóðið rann alveg yfir svæðið á milli garðanna og upp að Innra-Bæjargilsgarðinum að innanverðu.
Flóðin eru tiltölulega þunn á svæðinu milli garðanna og neðan þvergarðsins, víðast 0.5-1 m að þykkt. Meðfram görðunum að utanverðu eru þykkar hrannir af flóðsnjó sem eru víða margir metrar þykkt og er þar að sjá háa óreglulega hryggi þar sem þykkt flóðsins er mjög mikil. Doppler radar á Skollahviltargarðinu mældi hraða flóðsins úr hvilftinni skömmu áður en það kom að garðinum ofanvert við miðju og reyndist það þar á 45-60 m/s hraða sem samsvarar 150-200 km hraða á klst. Flóðin úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili eru með allra stærstu snjóflóðum sem fallið hafa á leiðigarða í heiminum og gefa mikilsverðar upplýsingar um streymi snjóflóða sem lenda á fyrirstöðum og virkni leiðigarða.
Mælingar á rúmmáli flóðanna liggja ekki fyrir en út frá tiltækum upplýsingum er áætlað að Skollahvilftarflóðið kunni að vera sambærileg að stærð við flóðið sem féll úr Skollahvilft í október 1995. Flóðið úr Innra-Bæjargili var mun minna að rúmmáli enda upptakasvæði þess minna. Meðfylgjandi myndir sýna ummerki flóðanna á leiðigörðunum.
Horft niður með vestari leiðigarðinum yfir farveg snjóflóðsins úr Innra-Bæjargili sem rann út sjó vestan Flateyrar og að hluta yfir garðinn og á húsið að Ólafstúni 14. Óhreyfður snjór á garðhliðinni sýnir hvar flóðið byrjaði að flæða yfir garðinn en þar fyrir neðan hefur snjór sópast af garðinum og gróður hreinsast burt. (Ljósmynd Óliver Hilmarsson)
Horft niður með eystri leiðigarðinum yfir farveg snjóflóðsins úr Skollahvilft sem rann út höfnina við Flateyri. Sjá má hvernig flóðið hefur brotið gróður þegar það streymdi með garðinum. Ummerki um skriðstefnu flóðsins meðfram toppi garðsins má sjá í snjónum. (Ljósmynd Óliver Hilmarsson)
Horft upp með eystri leiðigarðinum upp í Skollahvilft yfir farveg snjóflóðsins sem rann út höfnina við Flateyri. Sjá má brotinn gróður á garðhliðinni. Litbrigði í snjónum ofan garðsins gefa til kynna hrönnina sem flóðið skildi eftir sig neðan við gilkjaftinn. (Ljósmynd Óliver Hilmarsson)
Uppfært 16.01. kl. 12:20
Almannavarnastig fært af neyðarstigi niður á óvissustig. Óvissustigi vegna snjóflóða aflétt
Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Vestfjörðum hefur ákveðið að færa almannavarnastig í umdæmi Lögreglustjórans á Vestfjörðum af neyðarstigi niður á óvissustig vegna snjóflóða á Flateyri og í Súgandafirði.
Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum hefur verið aflýst. Það þýðir að frekari rýming íbúðarhúsnæðis vegna snjóflóðahættu er ekki fyrirhuguð í þeirri snjóflóðahrinu sem nú er talin afstaðin. Veður er orðið skaplegt en austanstrekkingur og stöku él eru áfram. Fréttir hafa borist af nokkrum flóðum eftir að veðrinu slotaði en ekki hefur hlaupið úr fjölda snjóflóðafarvega þar sem snjóalög kunna enn að vera óstöðug. Reiknað er með að óstöðugir vindflekar séu enn í fjöllum og varasamt er því að vera á ferð í fjalllendi og bröttum hlíðum.
Uppfært kl. 18:10
Snjóflóðið sem féll úr Skollahvilft á Flateyri flæddi talsvert yfir eystri leiðigarðinn ofan eyrarinnar
Snjóathugunarmenn og sérfræðingar Veðurstofunnar hafa í dag kannað snjóflóðin á Flateyri eftir að þeir komu á staðinn með varðskipinu Þór. Í ljós kom að flóðið sem olli tjóni í höfninni hafði að hluta til farið yfir varnargarðinn, eins og áður var vitað um flóðið sem féll hinum megin í bænum úr Innra-Bæjargili. Niðurstöður mælinga liggja ekki fyrir en vísbendingar eru um að meira hafi flætt yfir Skollahvilftargarðinn en yfir garðinn undir Innra-Bæjargili.
Út frá þeim upplýsingum sem liggja nú fyrir er áætlað að flóðin á Flateyri í gær kunni að vera sambærileg að stærð við flóðið sem féll úr Skollahvilft í október 1995. Flóð yfir varnargarðana á tveimur stöðum nú kalla á endurmat á virkni varnargarðanna á Flateyri og þá um leið endurskoðun á hættumati sem gert var 2004.
Uppfært kl. 11:50
Flóðið úr Innra-Bæjargili kallar á mat á virkni varnargarðsins og ýtarlegar mælingar á flóðunum sem féllu í gær
Snjóflóðið úr Skollahvilft á Flateyri, sem olli miklu tjóni í smábátahöfninni, virðist hafa verið mjög stórt. Varnargarðurinn beindi því frá byggðinni og til sjávar, en garðurinn er ekki miðaður við að verja hafnarsvæðið. Flóðið úr Innra-Bæjargili virðist einnig hafa verið mjög stórt. Það flóð fór að hluta til yfir varnargarð og lenti á íbúðarhúsi. Unglingsstúlka grófst í flóðinu. Henni var bjargað og hún er ekki alvarlega slösuð.
Í hættumati er gert ráð fyrir að það geti gefið yfir snjóflóðavarnargarða við verstu aðstæður. Gert er ráð fyrir rýmingu á svæði neðan varnargarðanna á Flateyri við slíkar aðstæður. Búist var við stórum snjóflóðum og gengið hafði verið úr skugga um að enginn væri í húsum á þeim svæðum þar sem líkur voru taldar á að stór flóð gætu fallið samkvæmt hættumati. Húsið sem flóðið úr Innra-Bæjargili lenti á er á svokölluðu svæði A samkvæmt hættumati og ekki er gert ráð fyrir að rýma hús á því svæði nema við allra verstu aðstæður. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar mat snjóflóðahættuna í gær ekki svo að aðstæður væru þannig. Veðurhamurinn í þessari snjóflóðahrinu var ekki jafn mikill og í hrinunni árið 1995 og því voru aðstæður metnar skárri nú. Þegar þessari hrinu slotar þarf að greina veðuraðdraganda hennar og upplýsingar um þessi og önnur flóð sem fallið hafa í henni til þess að geta sagt nánar til um ástæður þess að svo stór flóð féllu nú.
Myndin sýnir rýmingarsvæði A, B og C samkvæmt hættumati og staðsetningu varnargarðanna.
Flóðið úr Innra-Bæjargili kallar á mat á virkni varnargarðsins og ýtarlegar mælingar á flóðunum sem féllu í gær. Mæla þarf hversu mikið rann yfir garðinn og hvernig flóðtungan þar liggur til þess að sjá betur hvernig flóðið féll á garðinn og hversu stór hluti þess rann yfir hann. Einnig þarf að mæla þykkt og rúmmál flóðsins og kanna hvort flæddi yfir garðana ofar í hlíðinni. Þetta verður gert strax og aðstæður leyfa.
Nánari upplýsingar má finna á síðum Snjóflóðavaktarinnar.
15.01.2020 – Kl. 7:50
Stór snjóflóð féllu á Flateyri og á Suðureyri
Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð skömmu eftir kl. 23 að kvöldi 14. janúar og náðu bæði út í sjó, annað úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Flóðið úr Innra-Bæjargili féll að hluta yfir varnargarð og á hús að Ólafstúni 14 og grófst unglingsstúlka í flóðinu. Henni var bjargað og er ekki talin alvarlega slösuð. Flóðið úr Skollahvilft féll meðfram varnargarði og út í smábátahöfnina og olli þar miklu tjóni á bátum en ekki slysum á fólki. Þriðja snjóflóðið féll í Súgandafirði við Norðureyri og náði einnig út í sjó. Flóðbylgja af völdum þess olli skemmdum á húsum við ströndina utan og innan við höfnina á Suðureyri, en ekki slysum á fólki.
Flóðin á Flateyri voru mjög stór en ekki er þekkt enn sem komið er hvort þau séu ámóta og stærstu fyrri flóð, minni eða stærri. Flóðið úr Skollahvilft sást á radar á varnargarðinum og mældist á 150–200 km hraða á klst nokkru áður en það lenti á garðinum.