,,Íslendingar hafa gefið framleiðslukvóta í sjókvíaeldi í lögsögu sinni án útboðs“
Namibía norðursins? – Norskir aðilar eiga yfir 90% af öllu sjókvíaeldi við Ísland
Á meðfylgjandi mynd má sjá hinn 25 ára Gustav Magnar Witzøe, einn yngsta milljarðamæring heims. Auðæfi hans eru metin á um 400 milljarða ISK og eru þau tilkomin vegna eldis á laxi í sjókvíum, en faðir hans hefur fært honum umrædd auðæfi í formi hlutabréfa.
En hvað kemur það Íslendingum við?
Jú, þeir feðgar ásamt öðrum, eru meirihlutaeigendur Arnarlax á Vestfjörðum. Gustav og fyrirtæki hans er einn þeirra aðila sem Íslendingar hafa gefið framleiðslukvóta í sjókvíaeldi í lögsögu sinni án útboðs.
Arnarlaxi hafa verið færðir framleiðslukvótar á laxi að andvirði 35-40 milljarða við strendur Íslands ef miðað er við gangverð slíkra kvóta í Noregi í dag. Þeim sem telja ekki hægt að bera saman gangverð laxaframleiðslukvóta á Íslandi og Noregi skal bent á þá staðreynd að það er styttra frá Osló til Íslands, en frá Osló til sjókvía í Norður-Noregi.
,,Það má því leiða líkur að því að þar hafi almenningur á Íslandi verið hlunnfarinn því kvótinn er langstærsta eign fyrirtækisins“
Nú rétt fyrir áramótin skráði Arnarlax sig, og um leið framleiðslukvótana sem þeir fengu gefins við Ísland, í Kauphöllina í Osló. Þar tvöfaldaðist verð hlutabréfanna og er fyrirtækið nú metið á um 40 milljarða króna – nákvæmlega það sem framleiðslukvóti fyrirtækisins á Íslandi hefði kostað í Noregi. Það má því leiða líkur að því að þar hafi almenningur á Íslandi verið hlunnfarinn því kvótinn er langstærsta eign fyrirtækisins.
Framleiðslukvótarnir eru því verðmetnir á við fyrirtækið Icelandair sem veitir um 4.000 manns atvinnu. Hjá Arnarlaxi starfa 100 manns að mestu við laxaslátrun.
Norskir aðilar eiga yfir 90% af öllu sjókvíaeldi við Ísland
Gustav og norskir aðilar eiga yfir 90% af öllu sjókvíaeldi við Ísland, en hluti þeirra skráir eignaraðild sína í skattaskjólum til að forðast skattgreiðslur og flækja eignaraðild.
Þess má geta að Arnarlax hefur enn ekki greitt tekjuskatt á Íslandi eftir 10 ára rekstur.
Arnarlax hefur fengið afslátt af hafnargjöldum hjá sveitarfélögum á Vestfjörðum og greiða þar jafnvel minna en íslenskar útgerðir. Nýlega var breytt íslenskum lögum um skipstjórnarréttindi til að hægt væri að fá ódýrara vinnuafl á fóðurbáta fyrirtækisins – og það í andstöðu við Félag íslenskra skipstjórnarmanna. Síðasta innlegg sjávarútvegsráðherra er svo frumvarp til breytinga á lögum um fiskeldi til að fyrirtækin komist mögulega nær hérlendum laxveiðiám.
Teitur Björn Einarsson innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokknum fór nýlega fram á það að stjórnsýsluúttekt yrði gerð á Hafrannsóknastofnun vegna þess að stofnunin væri treg til að auka við framleiðsluleyfi þessara norsku fyrirtækja.
Ef þú spyrð mig þá ætti stjórnsýsluúttektin að vera á einhverju öðru en Hafrannsóknastofnun.
Ein af hverjum fimm laxveiðiám lokuð stangaveiðimönnum vegna laxeldis
https://gamli.frettatiminn.is/ein-af-hverjum-fimm-laxveidiam-lokud-stangaveidimonnum-vegna-laxeldis/