Sameiginleg fréttatilkynning forsætisráðuneytisins, mennta- og barnamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar
Ný þjóðarhöll mun umbylta umgjörð í kringum landsliðsfólk í fjölmörgum íþróttagreinum, stórbæta aðstöðu fyrir börn og ungmenni og aðra íþróttaiðkendur auk þess að vera fjölnota hús fyrir þjóðina alla samkvæmt tillögum framkvæmdanefndar. Hún verður 19.000m2 að stærð, mun taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 manns á tónleikum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynntu í dag stöðu og næstu skref við byggingu nýrrar Þjóðarhallar í Laugardalnum.
Frá blaðamannafundi ríkis og borgar
Þjóðarhöllin verður fjölnota mannvirki fyrir íþróttir, menningu, kennslu og viðburði. Í skýrslu framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll kemur fram að í höllinni verði fjölnota gólf og sæti verði að hluta til hreyfanleg þannig að unnt sé að nýta megnið af gólfi Þjóðarhallar frá degi til dags til íþróttaæfinga en höllin rúmi sömuleiðis stóra íþróttaviðburði, landsliðsleiki og tónleika. Einnig mun Þjóðarhöllin uppfylla kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda þannig að hægt verði að spila leiki á stórmótum hér á landi.
Gert er ráð fyrir útdraganlegum stúkum sem alla jafna verða inndregnar svo unnt verði að nýta gólfið til íþróttaiðkunar samkvæmt skýrslu framkvæmdanefndar
Notendur verða íþróttafélög, landsliðshópar sérsambanda fyrir æfingar og keppni, skólar í nágrenninu, háskólar fyrir íþróttakennslu og ýmsir viðburðahaldarar. Þá er ætlunin að höllin sé aðgengileg almenningi til eflingar lýðheilsu með ýmsum æfingamöguleikum, auk veitingareksturs. Gert er ráð fyrir góðri tengingu og flæði milli Þjóðarhallar, Laugardalshallar og Frjálsíþróttahallar fyrir iðkendur, gesti og starfsfólk. Staðsetning hennar verður sunnan Laugardalshallar upp að Suðurlandsbraut. Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdar er um 15 ma. kr.
Staðsetning Þjóðarhallar samkvæmt skýrslu framkvæmdanefndar
Vinna að deiliskipulagi stendur yfir. Samhliða er unnið að undirbúningi útboðs á hönnun og framkvæmd annars vegar og eftirliti hins vegar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í byrjun árs 2024 með verklokum haustið 2025. Nánari upplýsingar um næstu skref er að finna í skýrslu framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll.