-0.2 C
Reykjavik
Laugardagur - 4. febrúar 2023
Auglýsing

,,Tæp vika þar til hrina verkfalla mun hefjast''

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

,,Ef fulltrúar Samtaka atvinnulífsins halda eina einustu mínútu að þeim takist að troða ofan í kokið á okkur þessari réttindaeftirgjöf sem mun leiða til kjaraskerðingar hjá hluta af okkar fólki þá vaða þessir ágætu fulltrúar SA villu vegar.“

Vilhjálmur Birgisson skrifar um væntanleg verkföll

Það verður því miður að segjast alveg eins og er að það er þyngra en tárum taki það skilnings-og aðgerðaleysi fulltrúa Samtaka atvinnulífsins þegar kemur að þeirri alvarlegu kjaradeilu sem nú er uppi á íslenskum vinnumarkaði.
En núna er einungis tæp vika þar til hrina verkfalla mun hefjast hjá starfsmönnum sem starfa á hótelum og við akstur hópferðabíla á höfuðborgarsvæðinu.
Ég tel mikilvægt að upplýsa félagsmenn, almenning og síðast en ekki síst hinn almenna atvinnurekenda um stöðuna og af hverju ekkert hefur þokast í deilunni við Verkalýðsfélag Akraness, Grindavíkur, VR og Eflingu- stéttarfélag.
Jú, ástæðan er einfaldlega sú að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa nánast ekkert viljað tala við fulltrúa þessara stéttarfélaga um allanga hríð. En af hverju vilja fulltrúar SA ekki tala við þessi stéttarfélög sem neinu nemur, jú ástæðan er sú að þessi stéttarfélög hafa alfarið hafnað öllum hugmyndum Samtaka atvinnulífsins um að gera róttækar breytingar á vinnustundafyrirkomulagi á íslenskum vinnumarkaði.
Breytingum sem lúta að umtalsverðri réttindaeftirgjöf hjá íslensku launafólki, eftirgjöf sem byggist á því að lengja dagvinnutímabilið um allt að tvo tíma á dag, breyta uppgjörstímabili á yfirvinnu, breyta deilutölu á dagvinnutíma sem leiðir til lækkunar á yfirvinnuprósentu úr 80% í 66%. Einnig eru Samtök atvinnulífsins með kröfu um að taka upp svokallað 40% eftirvinnuálag sem myndi leiða til umtalsverðar kjaraskerðingar hjá starfsfólki í hlutastörfum.
Öllum þessum atriðum hafa eðlilega áðurnefnd stéttarfélög ítrekað hafnað, enda alls ekki til umræðu að launafólk greiði sjálft að hluta fyrir sínar launahækkanir með slíkri réttindagjöf til atvinnurekenda.
Þrátt fyrir að Verkalýðsfélag Akraness, Grindavíkur, VR og Efling- stéttarfélag hafi margítrekað hafnað þessari hugmyndafræði Samtaka atvinnulífsins og það nánast á öllum þeim fundum sem haldnir hafa verið, þá halda þeir áfram að halda þessum kröfum sínum uppi gagnvart okkur.
Fyrir vikið þá komast þessar viðræður ekkert áfram, en rétt er að geta þess að ég tekið þátt í kjarasamningsgerð í 14 ár og hef aldrei áður lent í því að viðsemjendur komi aftur og aftur með kröfur á samningsborðið sem hafa verið ítrekað hafnað.
Ef fulltrúar Samtaka atvinnulífsins halda eina einustu mínútu að þeim takist að troða ofan í kokið á okkur þessari réttindaeftirgjöf sem mun leiða til kjaraskerðingar hjá hluta hjá okkar fólki þá vaða þessir ágætu fulltrúar SA villu vegar.
Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa sagt á opinberum vettvangi að þeir séu í góðum og taktföstum viðræðum við öll önnur stéttarfélög og hafa ítrekað ýjað að því að þær viðræður gangi vel þar sem þessar vinnustundabreytingar séu til umræðu. Þeir hafa einnig sagt á opinberum vettvangi að þeir séu svo sannarlega tilbúnir til viðræðna við okkur, en þeir sleppa að segja að til að það verði þá verði það á þeirra forsendum, forsendum sem byggjast á þessari réttindaeftirgjöf sem ég hef rakið hér í þessari færslu.
Bara þannig að það sé ítrekað enn og aftur þá verður það aldrei, enda stendur ekki til að við séum að fara að gjaldfella réttindi okkar félagsmanna og láta okkar félagsmenn kaupa að hluta af sínum launahækkunum sjálft eins og hugmyndir SA ganga út á.
Ég held að vinnumarkaðurinn verði því miður að búa sig undir afar hörð verkafallsátök því það virðist ekki neinn samningsvilja vera að finna hjá okkar viðsemjendum og það nema síður sé.
Eins og margoft hefur komið fram þá er markmið áðurnefndra stéttarfélaga að þessar kjaraviðræður lúti að því að lagfæra ráðstöfunartekjur og kjör þeirra sem eru á lægstu launatöxtunum á íslenskum vinnumarkaði og það er hægt að gera með margvíslegum hætti.
Það liggur fyrir að við viljum fara þá leið að hækka öll laun með beinum krónutöluhækkunum en ekki prósentum, enda liggur fyrir að prósentulaunahækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka á misrétti í íslensku samfélagi. En með þessari aðferð er hægt að nýta það svigrúm sem er til staðar til að hækka lægstu launataxtanna með hærri krónutölu, en ella.
Við höfum líka átt í viðræðum við stjórnvöld og ég vil á þessari stundu vera hóflega bjartsýnn á að okkur takist að koma með aðgerðapakka sem getur kallað á umtalsverða kerfisbreytingu á mörgum hlutum er lúta að réttindum almennings. Þó er rétt að geta þess að nokkur stórmál er enn óleyst hvað það varðar, en samt vil ég leyfa mér að vera hóflega bjartsýnn eins og áður sagði.
En núna erum við að renna út á tíma, því ef þetta endar í verkfallsátökum þá er ljóst að þau átök geta verðið æði hörð og því er til mikils að vinna að nýta komandi viku til að finna lausn á kjaradeilunni þar sem hagmunir lág- og lægri millitekjuhópanna verði hafðir að leiðarljósi.
En forgangsmálið er að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins sópi öllum hugmyndum af samningsborðinu um að launafólk eigi að gefa eftir áunnin réttindi sem mun leiða til tekjuskerðingar hjá hluta af okkar félagsmönnum.
Ef fulltrúar Samtaka atvinnulífsins átta sig á þessari stöðu þá vil ég leyfa mér að vera bjartsýnn á að okkur takist að klára nýjan kjarasamning án blóðugra verkfallsátaka því eins og flestir vita þá vilja allir leysa deilunni án átaka. Nú er boltinn hjá Samtökum atvinnulífsins og það er á þeirra ábyrgð ef þeir spyrna boltanum langt út á haf.