Samkvæmt upplýsingum frá Vestfjarðastofu, sem sér um framkvæmdahlutann fyrir landshlutasamtökin Fjórðungssamband Vestfirðinga, hélt ríkisstjórnin fund sl. fimmtudag þann 12. mars 2020 með Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Efni fundarins voru meðal annars fyrirsjáanlegar þrengingar í atvinnulífi í landinu vegna þess ástands sem var að skapast af völdum útbreiðslu vírusins COVID-19.
Líkast til er hvatinn að fundinum ekki síst bein áhrif á ferðaþjónustuna og stærsta flugfélag landsins vegna yfirvofandi ferðabanns og afpantana ferða til Íslands. Fyrirsjáanlega verður umtalsverð kólnun í hafkrefinu – samdráttur í efnhagslífinu, minnkað starfshlutfall og beinar uppsagnir starfsfólks framundan. Ríkisstjórnin hefur enda boðað ýmsar aðgerðir til þess að bregðast við ástandinu til skamms og langs tíma. Innlegg í þetta var að fá innspítingu í atvinnulífið og hagkerfið með því að leggja í framkvæmdir af hálfu sveitarfélaganna.
Meðal þess efnis sem kom til kasta sveitarfélaga landsins var að benda á framkvæmdir sem væru fyrirhugaðar eða áformaðar næstu ár eða mánuði. Fólst í þessu boð eða beiðni um það til einstakra sveitarfélaga að benda á framkvæmdir sem gætu farið af stað næstu 3-5 mánuði, taka út hentug verkefni. Þannig eru boðaðar vinnumarkaðsaðgerðir sem unnt væri að nota í þeim tilgangi að skapa atvinnu og minnka höggið af því fordæmalausa ástandi sem er að hellast yfir heimsbyggðina og ekki síður á Íslands sem eyríki sem byggir mikið á ferðaþjónustu og á allt sitt undir flugi meira og minna.
Í örsamfélaginu Súðavíkurhreppi höfum við beðið átekta í um 6 ár eftir að geta hafist handa við uppbyggingu atvinnulífs til þess að bregðast við ónýtri byggðastefnu undanfarinna áratuga. Þrengingar sem hafa gengið yfir Súðavík og Súðavíkurhrepp frá því kvótakerfið komst á, samdrátt í rækjuveiðum í Djúpi og ekki síst hamförum af völdum náttúrunnar janúar 1995. Súðavíkurhreppur er byggður fólki sem hefur fengið sinn skammt af samdrætti og þrengingum og einnig fólki sem kann að snúa bökum saman þegar erfiðleikar dynja yfir. Fólkið í Súðavík er með áform sem geta nýst öllu samfélaginu ef stjórnvöld hafa raunverulegan vilja til þess að koma hlutum á framkvæmdastig. Og við erum tilbúin til þess að hrinda þessu í framkvæmd strax.
Samfélagið hér í Súðavíkuhreppi hefur haldið að sér höndum með framkvæmdir og í raun sett útgjöld í frost til þess að vera í stakk búið að geta farið í uppbyggingu nýrra hafnar og kalkþörungaverksmiðju. Höfnina ætlar sveitarfélagið að byggja með Vegagerðinni, en kostnarur við hana hleypur á hundruðum milljóna. Verksmiðjuna mun byggð af írska félaginu Marigot Group – Íslenska kalkþörungafélaginu. Súðavíkurhreppur mun leggja til land og aðstöðu og tryggja að til þess verði hafnaraðstaða og skipulag sem gerir ráð fyrir slíkri starfsemi. Hér er skipulagsvinnan að baki svo langt sem það nær, hafnarmannvirki komin á gildandi samgönguáætlun en auk þess er verið að reyna að ýta í gegn vinnu sem snúr að leyfisveitingum (vinnsluleyfi og samþykki umhverfisyfirvalda) af hendi Íslenska kalkþörungafélagsins.
Sem sveitarstjóri Súðavíkurhrepps brást ég strax við erindi frá Vestfjarðastofu og tók saman greingargerð um það sem við höfum hug á að einhenda okkur út í. Við munum fara af stað um leið og leyfi fæst til þess og tryggt verður að starfsemi verði við höfnina. Hér er sveitarfélag sem skuldar lítið og hefur gert ráð fyrir að þurfa að nota sína fjármuni í verkefnið til þess að ekki verið fjárfest umfram heimild að sveitarstjórnarlögum. Auðvitað, þegar slík framkvæmd felur í sér fjárfestingu upp á hundruði milljóna, verður hlutur sveitarfélags jafnframt talinn í tugum og jafnvel hundruðum milljóna. Því er eðlilegt og æskilegt að komi til láns að einhverju leyti. Súðavíkurhreppur hefur áformað að fara í verkefnið til þes að byggja upp atvinnu í hreppnum og um leið sterkara samfélag með tryggar framtíðartekjur til þess að tryggja viðgang sveitarfélagsins.
Vinnsla kalkþörungs af hafsbotni er ekki þungaiðnaður eða mikið mengandi iðja. Nokkur reynsla er komin á slíka vinnslu hérlendis, en Íslenskur kalkþörungur rekur verksmiðju á Bíldudal í Vesturbyggð. Unnið er náttúruefni úr dauðri skel kalkþörunga, en efnið er þurrkað og mulið í hentugar stærðir til áburðar eða matvælavinnslu. Til reksturs verksmiðju eins og þá sem til stendur að starfrækja á Álftafirði þarf um 8 MW raforku. Fyrirhuguð verksmiðja verður hybrid og getur verið starfandi ýmist á raforku eða gasi þegar þess gerist þörf.
Sem sveitarstjóri Súðavíkurhrepps legg ég fram tilboð okkar um að halda málinu til streitu en það hefur verið í farvatninu frá því 2014 og langt komið í undirbúningsvinnu hvað viðvíkur hreppinn. Framhald málsins er í höndum ríkisstofnana á borð við Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Orkustofnun og að sjálfsögðu alþingis og ríkisstjórnarinnar. Hér getur ríkisstjórn haft hönd í bagga og ýtt á eftir þessu verkefni sem mun skapa mörg heilsársstörf og afleidd störf fyrir svæðið. Um leið má tryggja vinnu við uppbyggingu og framtíðartekjur fyrir ríkið og sveitarfélagið.
Þetta yrði frábær viðbót við fábreytt atvinnulíf á svæðinu, kærkomin viðbót til þess að gera atvinnulíf stöðugra þar sem önnur lögmál gilda um vinnslu og sölu afurða en gilda um fiskveiðar og ferðaþjónustu. Hér er um að ræða uppbyggingu sem myndi verða mikil innspíting í atvinnulífið sem er undir hrammi ytri áhrifa í dag og væri hér hægt að veita mörgum atvinnu við það starf að byggja upp landfyllingu, höfn, verksmiðju, starfsmannaíbúðir, tengingu raforku og veitur og þannig stórt verkefni fyrir mörg ársverk. Og síðast en ekki síst – vinnsla kalkþöungs í Álftafirði myndi gagnast öllu atvinnusvæðinu á norðanverðum Vestfjörðum, enda ljóst að þar yrðu fleiri heilsársstörf í boði en fengjust mönnuð í Súðavík. Afleidd störf og þjónusta myndi kalla á frekari eflingu fyrir svæðið allt.
Og til upplýsingar, þá hefur þegar verið ákveðið að hefja framkvæmdir við höfn Ísafjarðarbæjar í Skutulsfirði, en sú framkvæmd er á gildandi samgönguáætluun. Þar er áformað að dæla upp hundruðum þúsunda rúmmetra af efni af hafsbotn til þess að dýpka höfnina (innsiglingu) og lengja viðlegukant. Þannig fellur til gríðarlegt magn efnis sem þarf að losa einhversstaðar, en þó er það aðeins hluti þess efnis sem þarf að dæla upp sem unnt er að nota inn á Álftarfjörð. Það myndi þó vel nýtast til uppbyggingar landfyllingar undir athafnastvæði verksmiðju og hafnarmannvirkis. Þannig væri til mikils sparnaðar að slá þessum framkvæmdum saman í tíma og í raun óábyrgt að nýta ekki það tækifæri. Við það myndi Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi og Vegagerðinni sparast til a.m.k. tugir milljóna við uppbyggingu í báðum verkefnum, hvoru á sinn hátt.
Þess má geta að um leið og verkefninu voru gerð skil í greinargerðinni minntum við á það þarfa verk að koma þjóðveginum um Súðavíkurhlíð í lóg með því að stefna á gangnagerð milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Með því væri hægt að leggja af einn af erfiðari vegum landsins og til lengri tíma spara fé og tryggja almannaheill. Það verkefni væri upplagt í fjórðungnum í framhaldi af Dýrafjarðagöngum, sem nú eru langt komin. Í dag, þegar þetta er ritað, 16. mars 2020, er vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaður vegna snjóflóðahættu og Djúpvegur lokaður, bæði Steingrímsfjarðarheiði og langir kaflar frá Súðavík inn að Ísafjarðarbotni. Súðavíkurþorpið og byggðin öll í hreppnum er einöngruð líkt og marga aðra daga ársins að vetri.
Fyrir hönd Súðavíkurhrepps sendi ég greinargerð til Vestfjarðastofu f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga að morgni 13. mars 2020. Af hendi Vestfjarðastofu og Fjórðungssambandsins er búið að er að taka saman það sem lagt var til hér af sveitarfélögunum landshlutanum. Sitt sýnist hverjum sem sendu erindi fyrir hönd sveitarfélaganna en fyrirferðamikið er verkefni tengt fiskeldi og tekur það mikið pláss í texta samantekarinnar. Kannski er það skiljanlegt í ljósi þess að greinin hefur verið í miklum vexti og innviði vantar í sveitarfélögunum til þess að mæta kröfum greinarinnar. En Ísafjarðardjúpið er ennþá lokað fyrir laxeldi svo sem stefna stjórnvalda hefur verið til nokkurs tíma. En á meðan leggjum við í Súðavíkurhreppi til að nýrri tegund iðnaðar verði veitt brautargengi hér á norðanverða Vestfirði sem aukið gætu á stöðugleikann og stuðlað að meiri áhættudreifingu atvinnuvega á svæðinu.
Bragi Þór Thoroddsen – sveitarstjóri Súðavíkurhrepps