Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. mars, en alls var tilkynnt um 26 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 6. mars kl. 18.39 var ekið á gangandi vegfaranda í Miðhúsum í Reykjavík. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 7. mars kl. 16.26 var bifreið ekið vestur Miklubraut í Reykjavík og aftan á aðra, austan við Grensásveg, svo úr varð fimm bíla árekstur, en öll ökutækin voru á vesturleið. Þrír voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 8. mars. Kl. 9.31 var bifreið ekið á vegrið á Suðurlandsvegi, á mislægum gatnamótum við Vesturlandsveg í Reykjavík. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa blindast af sólinni. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.52 valt steypubíll á Dofrahellu í Hafnarfirði, við Álfhellu en þar er hringtorg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 9. mars kl. 20.05 var bifreið ekið um Lónsbraut í Hafnarfirði og á aðra bifreið, sem var ekið Óseyrarbraut til austurs. Biðskylda er á Lónsbraut gagnvart umferð um Óseyrarbraut. Sá sem ók um Lónsbraut viðurkenndi að hafa verið að tala í farsíma í aðdraganda slyssins, en hann er einnig grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur. Tveir voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 10. mars. Kl. 20.43 var bifreið ekið suður Breiðholtsbraut í Reykjavík og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótum við Selásbraut. Tveir ætluðu sjálfar að leita sér aðstoðar á slysadeild. Og kl. 22.22 var bifreið ekið á Suðurlandsvegi, við Hólmsá, yfir á öfugan vegarhelming og á vörubifreið með tengivagn. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 11. mars kl. 16.45 var bifreið ekið á Sæbraut í Reykjavík og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótum við Dalbraut. Sú kastaðist áfram á þriðju bifreiðina. Einn var fluttur á slysadeild.