Karlmaður var í gær dæmdur í 12 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir eftirtalin brot.
Umferðarlagabrot, fíkniefnabrot og vopnalagabrot með því að hafa:
- Föstudaginn 9. febrúar 2018 ekið bifreið, sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 55 ng/ml og metýlfenídat 105 ng/ml), frá Krónunni Flatahrauni 13 í Hafnarfirði í átt að Álfaskeiði, þar til lögregla stöðvaði akstur hennar við Mávahraun.
- Sunnudaginn 15. apríl 2018 ekið bifreið, sviptur ökuréttindum austur Engihjalla í Kópavogi á vegarkafla við Valahjalla, þar sem lögregla stöðvaði akstur hennar.
- Að morgni laugardagsins 30. september 2017 ekið bifreið, sviptur ökuréttindum frá Arnarholti á Kjalarnesi að Olís við Vallargrund á Kjalarnesi, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.
- Fimmtudaginn 19. júlí 2018 í bifreið utan við umferðarmiðstoð BSÍ á Vatnsmýravegi í Reykjavík, haft í vörslum sínum afsagaðan 22 kalibera riffil ásamt skothylkjum, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.
- Umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 18. ágúst 2018 ekið bifreið sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist metýlfenídat 105 ng/ml). Jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni, alls 44,50 stykki af ecstasy, sem lögregla fann við leit í farangursrými bifreiðarinnar.
- Að kvöldi föstudagsins 7. september 2018 ekið bifreið, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 30 ng/ml, metýlfenídat 80 ng/ml og morfín 55 ng/ml), um Breiðhöfða í Reykjavík, þar til lögregla stöðvaði akstur hennar við Straum. Jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum veiðihníf sem lögregla fann við leit á ákærða.
- Aðfaranótt föstudagsins 28. desember 2018 ekið bifreið, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 65 ng/ml), um Breiðhöfða í Reykjavík, þar til lögregla stöðvaði akstur hennar við Straum. Jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum 2 stykki ecstasy og ásamt 59 stykkjum af 22. cal Remington riffilskotum, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.
- Fíkniefna- og vopnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 23. júlí 2018, í bifreið í Kópavogi, haft í vörslum sínum 8,58 g af amfetamíni, 4,50 ml af amfetamíni og 4,87 g af maríjúana sem lögregla fann við leit á ákærða og sveðju með 48 cm löngu blaði, sem lögregla fann á gólfi bifreiðarinnar.
- Fíkniefnalagabrot með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 18. nóvember 2018, haft í vörslum sínum 4,86 g af amfetamíni og 6 stykki ecstasy og sem lögregla fann við leit á ákærða.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 27. febrúar 2019, á ákærði allnokkurn sakaferil að baki sem nær allt aftur til ársins 1999. Meðal annars hefur ákærði hlotið níu fangelsisdóma fyrir ýmis hegningarlagabrot, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands, dagsettum 30. desember 2008, var ákærði dæmdur til að greiða sekt vegna ölvunaraksturs. Þá var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 11. janúar 2012, meðal annars fyrir vörslur fíkniefna og fyrir að aka undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Næst hlaut ákærði þriggja ára fangelsisdóm með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 6. september 2012 fyrir fíkniefnalagabrot, ýmis hegningarlagabrot og fyrir að aka undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna, sviptur ökurétti. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 23. júní 2015, fyrir sams konar brot. Loks var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi með dómi sama dómstóls hinn 12. september 2016, meðal annars fyrir vörslur fíkniefna og enn fyrir að aka undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna, sviptur ökurétti. Við ákvörðun refsingar hér verður þannig við það miðað að ákærði gerist nú í sjötta skipti innan ítrekunartíma, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sekur um að aka undir áhrifum áfengis- og/eða ávana- og fíkniefna og í þriðja skipti sviptur ökurétti.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Lesa má dóminn í heild sinni hér.