Maskína spyr þriðja árið í röð um viðhorf almennings til skotvopna á Íslandi og hvort fólk hafi aðgang að skotvopnum. Niðurstöðurnar sýna að þeim sem hafa aðgang að skotvopnum fjölgar lítillega á milli ára en 21% svarenda í könnuninni hafa aðgang að skotvopni. Fjölgað hefur um rúm 3 prósentustig í þessum hópi frá því að fyrst var spurt árið 2021.
Aðgangur að skotvopnum meiri á landsbyggðinni
Talsverður munur er á aðgangi almennings að skotvopnum eftir búsetu hans. Þannig er aðgangurinn minnstur meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitafélögum þess en þar hafa 15-16% aðgang að skotvopnum. Mun fleiri hafa aðgang að skotvopnum á bæði Vesturlandi og Vestfjörðum og á Norðurlandi eða um þriðjungur. Aftur á móti er aðgangurinn enn meiri á Austurlandi þar sem tæplega 40% aðspurðra sögðust hafa aðgang að skotvopnum. Mikill munur er á kynjunum en konur hafa í mun minni mæli aðgang að skotvopnum eða um 9% svarenda á móti rétt um þriðjungi karla.
Um þriðjungur hefur litlar áhyggjur af skotvopnaeign á Íslandi
Þegar Maskína lagði spurningar um skotavopn fyrst fyrir árið 2021 hafði hátt í helmingur svarenda litlar áhyggjur af skotvopnaeign á landinu. Sú afstaða hefur breyst töluvert en í ár hefur um þriðjungur svarenda litlar áhyggjur af skotvopnaeign. Þá hefur þeim sem hefur hafa af þessu miklar áhyggjur fjölgað frá árinu 2021 en í fyrra taldi sá hópur 47-48% svarenda en örlítið færri í ár eða 46%.
Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.092, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 21. mars 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Discussion about this post