Hvað sameinar þjóðir umfram annað? Tungumálið. Tungumálið tengir fólk saman í nútímanum en tengir okkur líka við fortíðina og komandi kynslóðir. Tungumálið er í senn ómetanlegur menningararfur og sameiningarafl.
Eftir að ég hóf að skrifa grein undir þessari fyrirsögn fyrir um tveimur árum ákvað ég að láta hana bíða og safna dæmum. Síðan þá hefur ástandið versnað að því marki að það kallar á viðbrögð og svar við spurningunni: Viljum við vernda íslenskuna eða ekki?
Í millitíðinni hafa nokkrir tjáð sig um málið á mjög skilmerkilegan hátt, einkum upp í síðkastið. Áður hafði verið varað við því í hvað stefndi í afbragðsgóðum málfarspistlum í Morgunblaðinu.
Hvaða máli skiptir tungumál okkar?
Hvað sameinar þjóðir umfram annað? Tungumálið. Tungumálið tengir fólk saman í nútímanum en tengir okkur líka við fortíðina og komandi kynslóðir (ef það varðveitist). Tungumálið er í senn ómetanlegur menningararfur og sameiningarafl. Það er einnig verkfæri sem gerir okkur ekki aðeins kleift að tjá okkur og skilja aðra, við þurfum það til að geta hugsað.
Það er því ekki að ástæðulausu að þeir sem leitast við að ná stjórn á tjáningu og hugsun fólks reyna jafnan að hafa stjórn á tungumálinu og jafnvel breyta því.
Þetta fór ekki fram hjá rithöfundinum George Orwell eins og víða má sjá í skrifum hans. Í bókinni 1984 lýsti hann því hvernig „Stóri bróðir“ náði allsherjarvaldi yfir almenningi og kæmi í veg fyrir að fólk gæti hugsað eða tjáð óþóknanlegar skoðanir, með því að ná stjórn á tungumálinu. Það var gert með innleiðingu nýlensku, tungumáls þar sem orðaforði og málfræði voru takmörkuð en orðum einnig gefin ný merking. Allt annað varð hatursorðræða. Samhliða þessu var innleidd tvíhugsun (e. doublethink) sem gekk út á að gera merkingu orða óljósari eða snúa þeim upp í andhverfu sína. Þannig gæti fólk sætt sig við þversagnir og trúað hlutum sem gengju ekki upp ef rökhugsun og rökræða fengju að viðgangast.
Nú er markvisst unnið að því að breyta íslensku í nýlensku, hefta tjáningu og innleiða tungumál sem ætlað er að draga úr gagnrýni og rökhugsun.
Að fela innihaldið
Oft hefur verið bent á að einn af kostum íslensku sé sá að orð lýsi jafnan merkingunni, eða innihaldinu, vel. Með þeirri umbúðamennsku sem einkennir stjórnmál samtímans hefur borið mjög á því að orðum sé skipt út fyrir önnur í þeim tilgangi að fela innihaldið. Þegar slík orð eru kynnt til sögunnar má jafnan gefa sér að eitthvað standi til.
Fóstureyðingar höfðu verið nánast óumdeilt mál á Íslandi áratugum saman. En um sama leyti og ríkisstjórn landsins ákvað að reyna við heimsmet í því hversu lengi mætti eyða fóstri kynnti hún til sögunnar orðið „þungunarrof“.
Ekki leið á löngu þar til orðið kona var farið að þvælast fyrir yfirvöldum. Nú skal talað um einstaklinga með leg eða „leghafa“ fremur en konur. Ef lesendur telja að ég sé að skálda þessa vitleysu get ég bent þeim á að ríkisstjórnin hefur þegar leitt orðið í lög og notað það í umræðu um konur.
Ef þið viljið vera í náðinni hjá stóra bróður skuluð þið líka hætta að nota orðið móðir. Ykkur er nú ætlað að tala um „fæðingaraðila“ eða „fæðingarforeldri“.
Áður var umræða um lögleiðingu fíkniefna (að einhverju eða öllu leyti) á jaðri stjórnmálanna. Þegar stjórnvöld fóru að þiggja leiðsögn Pírata í málaflokknum tóku þau að styðjast við orðskrípið „afglæpavæðingu“. Menn geta haft ólíkar skoðanir á því hvort eigi að lögleiða ákveðin fíkniefni eða ekki en það ber ekki vott um fulla sannfæringu ef þeir þora ekki að segja orðið. Og talandi um fíkniefni. Nú hefur ráðherra boðað áform um að leggja af fíkniefni. Nei, afsakið, leggja af orðið „fíkniefni“.
Þeim mun viðkvæmari og umdeildari sem málaflokkurinn er þeim mun meiri er þörfin fyrir að hafa stjórn á umræðu um hann. Líknardráp skal nú kallað „dánaraðstoð“. Tilgangurinn er að auka á „aðstoðina“ en vanhugsuð löggjöf þar um hefur leitt til hræðilegra atburða, m.a. í Kanada og Belgíu.
Eftir að málefni hælisleitenda fóru algjörlega úr böndunum á Íslandi var okkur sagt að tala um „umsækjendur um alþjóðlega vernd“. Afskaplega villandi orðalag um þá sem vilja fá hæli á Íslandi (fremur en annars staðar) en einnig svo óþjált og kerfislegt að það minnir gagnrýnendur á að tala ekki um það sem þeim kemur ekki við.
Oft verður verðbólga í orðanotkuninni þegar fyrri tilraunir reynast ekki nógu áhrifamiklar. „Veðurfarsbreytingar“ urðu að „hnattrænni hlýnun“ sem varð svo að „hamfarahlýnun“ og loks „hnattrænni stiknun“. Auk þess hefur verið sett fram krafa um að umhverfisspjöll verði kölluð „vistmorð“.
Stundum eru þó ákvarðanir yfirboðaranna um hvaða orð skuli nota fyrst og fremst hlægilegar. Einhverra hluta vegna ákváðu stjórnvöld og upplýsingaarmur þeirra einn daginn að land sem við höfum alla tíð kallað Hvíta-Rússland skyldi nú nefnt Belarús upp á rússnesku. Þetta mun hafa verið gert, af hefðbundinni rökvísi, til að hirta þarlend stjórnvöld vegna þess að þau væru okkur ekki að skapi. Liggur þá ekki beinast við að kalla Rússland „Rossíja“ og ef óásættanleg stjórn nær völdum í Finnlandi hljóta utanríkisráðuneytið og RÚV að fara að tala um Suomi.
Málfræðin
Á Íslandi nægir það ekki stóra bróður að innleiða nýlensku með nýjum orðum. Hér skal málfræðinni breytt, eða réttara sagt, hún eyðilögð. Hvers vegna leitast sumir nú við að tala hið sérkennilega nýja „kynjamál“? Eftir því sem næst verður komist liggja tvær ástæður þar að baki.
Í fyrsta lagi virðist fólkið sem stendur fyrir þessu ekki gera sér grein fyrir því að málfræðilegt kyn hefur ekkert með líffræðilegt kyn að gera. Þetta hafa aðrir útskýrt ágætlega eins og ég gat um. Í íslensku, eins og mörgum öðrum málum, t.d. þýsku, frönsku og spænsku, hafa nafnorð kyn og önnur orð vísa til þess. Þannig er t.d. orðið hetja kvenkyns hvort sem hetjan sem vísað er til er karlkyns eða kvenkyns. Það sama á við um lögreglu. „Hún“ handtók eftirlýstan glæpamann (kk.), jafnvel þótt lögregluþjónninn hafi verið karlkyns en glæpamaðurinn kvenkyns.
Í öðru lagi virðist þetta átak um að fá fólk til að tala viljandi rangt mál vera til þess fallið að hægt sé að meta hverjir eru „í lagi“. Hverjir eru þægir og hlýða skipunum um hvernig þeim beri að tala, jafnvel þegar þess er krafist að þeir tali rangt mál. Þeir hinir sömu verða enda varla til vandræða þegar þess verður krafist að þeir geri annað sem til er ætlast. Með því að hlusta á manneskju tala veist þú þá hvort viðkomandi er hlýðinn eða „vandræðamaður“. Þetta er væntanlega framlag yfirboðaranna til að taka á skautuninni (gott orð) sem þeir segjast hafa svo miklar áhyggjur af.
Þegar ég hóf nám í menntaskóla hafði íslenskukennarinn minn, Jón Guðmundsson, kennt nemendum rétt mál í 50 ár. Honum þótti mjög vænt um tungumálið og ég minnist þess að hann hafði oft á orði að þótt (ensku)slettur gætu verið hvimleiðar væru þær ekki mjög hættulegar, þær kæmu og færu eða yrðu tökuorð, tungumálið yrði ekki eyðilagt fyrr en ráðist yrði að málfræðinni.
Breytingarnar eru ekki til þess fallnar að gera tungumálið skiljanlegra, einfaldara eða fallegra.
Hvernig hljómar annars þessi nýlenska?: „Það vita öll að ekkert trúir þessu. Íslendingar standa saman öll sem eitt. Eitt fyrir öll og öll fyrir eitt.“ Ég vona að skemmtikraftar fari ekki að hrópa yfir salinn: „Eru ekki öll í stuði?!“
Nokkur dæmi
Eitt mikilvægasta hlutverk Ríkisútvarpsins er að vernda íslenskuna. Í lögum um stofnunina segir: „Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.“
Hvers vegna fer það fremst í flokki þeirra sem vilja brengla tungumálið í pólitískum tilgangi og ýta undir rugling og skautun?
Hvers vegna leggja menn sig fram um að tala rangt mál að því marki að þeir lenda í vandræðum með samhengi og skiljanleika?
Hér á eftir fylgja nokkur dæmi. Flest úr Ríkisútvarpinu:
„Flest ættu að vera komin með heitt vatn í kvöld.“ Er verið að vísa til húsanna eða íbúanna? Það hafði reyndar komið fram í útvarpsfréttum skömmu áður þar sem sagði á réttu máli: „Flestir íbúar ættu að vera komnir með heitt vatn í kvöld.“ Á þeim 45 mínútum sem liðu fram að sjónvarpsfréttum var þessu breytt.
„Eru mörg farin úr bænum vegna ástandsins?“ Mörg hvað, dýr? Í frétt um skoðanakönnun: „Jafn mörg nefndu [X].“ Jafn mörg hvað, voru bara börn spurð? Eða eru bara börn í framboði?: „77% vilja ekki þau sem hafa lýst yfir forsetaframboði.“
M.v. eftirfarandi setningu virðist m.a.s. orðið „það“ orðið hættulegt: „Hlutverk okkar er að undirbúa ungt fólk, undirbúa þau undir frekara nám.“ Svo var bent á vefsíðu „þar sem almenningur er hvatt til að tilkynna auglýsingar“. Einnig var sagt frá því að „þau fjölgar sífellt sem mæta í hádegisverðinn hjá Hjálpræðishernum“.
Oft er leitað í hið ofnotaða orð „aðilar“ en samt gleymist að það er karlkyns orð: „Þessir aðilar og fólk í kringum þau.“
Stundum vandræðast menn með þetta að því marki að þeir blanda saman nýlenskunni og eðlilegri íslensku í sömu setningu. T.d.: „Sumir hverjir eru dálítið óvissir um hvernig þau eigi að bera sig að“ og „þau þrjár manneskjur sem sjá um þetta …“ eða „er öll von úti eða telja menn að þau geti leyst úr þessu“.
Verndum íslenskuna
Ef þeir sem segjast vilja vernda íslenskuna gera það ekki nú, þegar sótt er að tungumálinu á annarlegan hátt, þá er ekkert að marka þá. Þá eru þeir bara að tala nýlensku og geta sagt eins og í bók Orwells: „Stríð er friður, frelsi er þrældómur, fávísi er styrkur.“
Höfundur er formaður Miðflokksins.