,,Við lifum á fordæmalausum tímum hraða og tækni þar sem normið er að svara vinnupóstum þegar þeir berast, hvenær sem er sólarhringsins. Við skutlum og sækjum börnin í tvær til þrjár íþróttir, utan skólatíma. Við tökum háskólagráður í fjarnámi með aukavinnu, förum í ræktina kvölds og morgna, sinnum félagslífi og ræktum svo sambandið ef okkur endist orkan. Svo gerum við þessu öllu saman góð skil með fullkomnu orðalagi og myndum á samfélagsmiðlum þar sem allir lifa hinu fullkomna lífi.
Youtube sér um að fræða og passa börnin okkar á meðan við erum límd við snjallsímann að fylgjast með veislunni. Það er aldrei drasl eða troðfullar þvottakörfur á Facebook.
Við setjum ekki inn myndir af skítugum pottum eða status um að elsta barnið hafi fallið aðra önnina í röð í skólanum eða að yfirdrátturinn hafi verið hækkaður, eina ferðina enn.
Við látum ekki fylgja brúðkaupsmyndinni að yndislegi makinn og sálufélaginn hafi sofið í stofunni í nótt eftir rifrildi yfir hversdagslegum smámunum eða af því athyglin var annars staðar þegar „news feedið“ var tæmt og öllum tölvupóstum svarað.
Við gerum oft svo óraunhæfar kröfur til okkar sjálfra í leik og starfi í stað þess að njóta þeirra lífskjara sem við raunverulega höfum. Lífsgæða sem eru í raun nær okkur en við gerum okkur grein fyrir. Framantalið eru bara þær kröfur sem við setjum á okkur sjálf með þrýstingi frá samfélaginu um að allt verði að vera fullkomið hjá okkur.
Þá eru óátaldir allir þeir fjölmörgu þættir í okkar samfélagi sem eru áhrifavaldar streitu eins og eftirmál hrunsins, búsetuóöryggi eða langvarandi framfærsluvandi og vinnuálag. Hægt er að benda á margt sem hefur mikil áhrif og samspil margra þátta sem saman byggja upp kvíða og streitu yfir lengri tíma sem á endanum brennir upp einstaklinga andlega og líkamlega.
Kulnun (e.burnout) er orðið mjög alvarlegt vandamál í okkar samfélagi. Fólk er einfaldlega að gefast upp og detta út af vinnumarkaði til lengri eða skemmri tíma með tilheyrandi kostnaði fyrir atvinnulífið. Sami hópur kemur svo inn á sjúkrasjóði stéttarfélaganna þar sem greiddir eru sjúkradagpeningar í allt að 9 mánuði eins og til dæmis hjá VR. Við tekur starfsendurhæfing en sem dæmi má nefna eru um 2.400 einstaklingar á skrá hjá VIRK starfsendurhæfingu og fer fjölgandi. Sem betur fer hafa úrræði verkalýðshreyfingarinnar og VIRK hjálpað mörgum að komast aftur út á vinnumarkaðinn og róum við að því öllum árum að fólk geti orðið virkir þátttakendur í samfélaginu, öllum til hagsbóta.
Það þarf róttæka vitundarvakningu og hugarfarsbreytingu. VR er nú að fara af stað með herferð til að vekja athygli á þessu brýna málefni svo við getum komið auga á merkin og einkennin áður en illa fer. Einnig er herferðin hugsuð til að vekja náungann til umhugsunar því oftast sjáum við ekki merkin hjá okkur sjálfum. Ég veit það af eigin reynslu að ég hefði sjálfur getað stigið inn í mál af þessu tagi miklu fyrr ef ég hefði haft þá þekkingu sem ég hef í dag. Inngrip í upphafi vanda er líklegra til að leysast fyrr og farsællega heldur en ef ástandinu er leyft að þróast þar til í óefni er komið. Samhliða herferð VR er VIRK starfsendurhæfing að hefja rannsóknarvinnu sem á sér vart hliðstæðu í íslensku samfélagi með nánari greiningu á orsökum og afleiðingum á vandanum, ásamt því að fara í metnaðarfullt forvarnarverkefni til að greina, fyrirbyggja og koma með lausnir.
Af hverju erum við að missa fólk af vinnumarkaði og af hverju kemst það ekki til baka? Þetta er ein stærsta áskorun vinnumarkaðarins og stjórnvalda á seinni tímum. Það er sérstaklega mikilvægt að við stöndum saman sem samfélag í að koma af stað löngu tímabærri vitundarvakningu á þessum málaflokki og huga að okkar nærumhverfi með því að fræðast um vandann og dusta rykið af náungakærleikanum. Það er orðið okkur öllum lífsnauðsynlegt að læra að þekkja mörk okkar sjálfra og virða þau enda eru þau ekki takmarkalaus.“ Segir Ragnar Þór Ingólfsson í pistli sínum í blaði VR.