Pistill þessi er ritaður réttu ári eftir að Alþingi afgreiddi þriðja áfanga áætlunar um vernd og orkunýtingu landssvæða, svokallaða rammaáætlun.
Hlutverk sveitarstjórna
Á dögunum bárust fréttir af því að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefði samþykkt að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Mun það hafa verið samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu. Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur enn ekki afgreitt framkvæmdaleyfi virkjunarinnar fyrir sitt leyti. Það hefur mátt skilja á sumum sveitarstjórnafulltrúum á svæðinu að fyrst kosturinn hafi verið afgreiddur í nýtingarflokk á Alþingi þá sé þeim nauðugur einn kostur að veita framkvæmdaleyfið. Það er fjarri öllum sanni og sveitarstjórnafólk veit auðvitað betur. Hver sveitarstjórn fer með skipulagsvaldið og leggur sjálfstætt mat á veitingu framkvæmdaleyfa. Þá hefur einnig heyrst að sveitarstjórnum finnist þær fá lítið fyrir sinn snúð þegar reist er virkjun í sveitarfélaginu. Á því sjónarmiði hef ég meiri skilning. Í fljótu bragði finn ég ekki annan beinan fjárhagslegan ávinning af Hvammsvirkjun í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en rammasamning við Landsvirkjun sem skilaði hreppnum 70 milljónum króna árið 2008. Það getur varla talist mikill fjárhagslegur ávinningur.
Í hvað fer orkan?
Í ljósi sögu áforma um virkjanir í neðri Þjórsá er ekki nema von að fólk reki upp stór augu og spyrji réttilega í hvað orkan eigi að fara. Nýlega vakti Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur athygli á því að orkusala til rafmyntagraftar væri jafnmikil þeirri orku sem seld er til allra heimila hér á landi og spurði hvort þau 90MW sem eiga að fást úr Hvammvirkjun verði seld til rafmyntagraftar. Það er eðlileg spurning sem stjórn og stjórnendur Landsvirkjunar þurfa að svara. Það skiptir nefnilega máli í hvers konar verkefni takmarkaðar náttúrulegar orkuauðlindir Íslands eru seldar.