Viðvaranir Embættis landlæknis vegna misnotkunar lyfja
Hætta vegna misnotkunar lyfja
Vegna frétta undanfarið um notkun ungmenna á ávanabindandi lyfjum vill embættið koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum. Ef of stór skammtur ávanabindandi lyfja er tekinn geta afleiðingarnar verið bæði bráðar og óafturkræfar fyrir einstaklinginn.
Bráð hætta af ávanabindandi lyfjum:
Sterk verkjalyf*: Blóðþrýstingsfall, svefnhöfgi og hætta á dái eða dauða vegna öndunarbælingar.
Slævandi lyf (róandi lyf)**: Róandi lyf eins og t.d. benzódíazepín geta verið lífshættuleg séu þau tekin með áfengi og öðrum lyfjum sem hafa bælandi áhrif á miðtaugakerfið.
Örvandi lyf***: Bráð ofskömmtun getur m.a. leitt til krampa (sem geta endað í dái), ofskynjana, óráðs, ofurhita, hraðtakts og háþrýstings.
Notkun margra efna samtímis (lyf, áfengi og ólögleg efni) eykur mjög hættu vegna samverkunar.
Einstaklingum sem sjaldan eða aldrei áður hafa notað viðkomandi lyf er mun hættara við alvarlegum aukaverkunum.
Lyf sem eru flutt inn af einstaklingum eða búin til á ólöglegan hátt eru mun hættulegri þar sem þau geta innihaldið ýmiss aukaefni. Dæmi um slíkt lyf er Xanax sem ekki er á markaði hér á landi. Xanax inniheldur alprazolam og iðulega önnur efni sem bætt hefur verið við.
*Dæmi um lyf: Contalgin, Oxycontin, Fentanyl, Búprenorfín, Tramadól ofl. Þetta eru hættulegustu lyfin.
**Dæmi um lyf: Alprazolam, Sobril, Stesolid, Imovane, Stilnoct, Díazepam o.fl.
***Dæmi um lyf: Amfetamín, Ritalin Uno, Concerta o.fl.