Það hlýtur að vera gaman þessa dagana hjá Sósíalistaforingjanum Gunnari Smára Egilssyni. Forsaga málsins er sú að skyndilega gerðist téður Gunnar Smári Sósíalisti eftir að hafa flogið í einkaþotunum með Jóni Ásgeiri. Og auðvitað stofnar Gunnar Smári flokk er ber hið virðulega nafn Sósíalistaflokkur Íslands.
Framanaf sór og sárt við lagði Gunnar Smári að hann hyggðist ekki fara á þing en eftirléti öðrum Sósíalistum upphefðina. En svo breyttist það víst. Nema hvað. Íslenska þjóðin afþakkaði Sósíalisma Gunnars Smára og hann komst ekki á þing. Svona enn eitt smáframboðið er nær ekki inn. Bættist Sósíalistaflokkurinn þar í langan lista slíkra framboða er lifna og deyja í senn. En svo kemur frétt um að þrátt fyrir að Gunnar Smári og félagar kæmust ekki á þing þá fékk flokkurinn samt 120 milljóna króna framlag úr ríkissjóði.
Nú er kannski ekki við Gunnar Smára að sakast að hinir 64 ríkisstarfsmenn er sitja við Austuvöll og hlýða á hroturnar í Tomma í Tommaborgurum- hafi samþykkt svona ölmusur til sjálfs sín og annarra er telja sig eiga erindi á þing. En svo vakna spurningar. Vissi Smárinn um þennan gjafagjörning ríkisstarfsmannanna? Kannski vissi hann að hið Sósíalíska hjarta þarf ætíð blóð frá alþýðunni – sem hér eru skattborgararnir? Fór hann fram af nýsprottinni hugsjón og manngæsku? Væri gaman að spyrja Jón Ásgeir þessarar spurningar. Kannski gæti hann velt fyrir sér svarinu í einkaþotunni um leið og kampavínið kraumaði í kristalsglasinu?
Aðsend grein: Guðmundur Jónsson