Réttlæti í umdeildu kerfi
Í aðgengi að fiskistofnum landsins, auðlindinni okkar, eru fólgin mikil verðmæti. Í heimi sem kallar á mat, heimi þar sem sífellt fleiri munna þarf að metta eru sterkir stofnar af nytjafiskum auðlind sem sífellt verður verðmætari. Hluta af þessari auðlind hefur Alþingi ákveðið að ráðstafa til byggða- og atvinnumála. Greitt er fyrir þessi verkefni, ekki með peningum, eins og í flestum öðrum verkefnum ríkisins, heldur með aflamarki, oftast í þorski. Ég tel að taka þurfi umræðu um þessi verkefni og hvort sú sneið auðlindarinnar sem á hverju ári er ráðstafað til þeirra sé nógu stór. Á vettvangi stjórnmálanna er verðmætum skipt og gjarnan er deilt um með hvaða hætti það er gert.
Fyrir upphaf nýs fiskveiðiárs hverju sinni gefur ráðherra út reglugerð sem segir til um hversu mikinn fisk má veiða úr hverjum stofni og hvernig honum skuli ráðstafað. Sú stærð sem mestu ræður er leyfilegur hámarksafli, en þar hyggst ég fara að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem leggur til samdrátt fyrir næsta fiskveiðiár. Ég tel að sjávarútvegurinn í heild muni ráða við þá áskorun þó að vissulega komi samdráttur misjafnlega við útgerðir landsins.
Einn tuttugasti er ekki nóg
Við aflaúthlutun er rúmlega einn tuttugasti hluti heildaraflans tekinn frá til hins svokallaða 5,3-kerfis. Það eru öll atvinnu- og byggðaverkefni á vegum ríkisins. Byggðakvóti sveitarfélaga og Byggðastofnunar, línuívilnun, skel- og rækjubætur, frístundaveiðar og síðast en ekki síst strandveiðar. Langstærsti hlutinn, eða nítján tuttugustu hlutar, rennur í „stóra kerfið“, sem er krókafla- og aflamarkskerfi og er úthlutað á skip. Þessi hluti aflans er veiddur af mörg hundruð skipum í eigu ýmissa útgerða. Mest af stórum en minnst af smáum.
Ýmsar skoðanir eru á því hvernig þessi skipting á að vera, milli þess hluta auðlindarinnar sem ráðstafað er til verkefna sem Alþingi kveður á um, byggða og atvinnuverkefna og þeirra sem veiddur er af útgerðunum. Sum vilja þennan félagslega hluta kerfisins sem minnstan eða engan og láta önnur sjónarmið ráða ríkjum. Mín pólitíska afstaða er sú að félagslegi hlutinn sé of lítill og að hann þurfi að stækka í hóflegum skrefum. Enda hefur það verið stefna Vinstri-grænna í lengri tíma. Sú ákvörðun er hins vegar ekki tekin af öðrum en Alþingi þar sem það er á valdi löggjafans að ákvarða það með lögum hvernig við skiptum auðlindinni.
Orð eru til alls fyrst og tel ég mikilvægt nú þegar farin er af stað umfangsmikil og metnaðarfull stefnumótun í sjávarútvegi að í stað þess að ræða stærð einstakra hluta eða potta ræðum við um skiptingu auðlindarinnar í heild. Hvernig auðlindinni er ráðstafað og hvernig við tryggjum réttlæti, hagkvæmni veiða og þjóðarhag sem best. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.
https://gamli.frettatiminn.is/26/07/2022/kvotakerfid-teir-sem-eiga-staerstu-og-bestu-batana-fa-ekki-meira-en-adrir/