Aðfaranótt sunnudagsins s.l. hringdi maður inn á neyðarlínu og tilkynnti um að ferðafélagar hans hefðu numið hann brott og hygðust vinna honum mein. Hann gat litlar skýringar gefið á staðsetningu sinni og lagði á og svaraði ekki síma eftir það. Greining á samskiptum við fjarskiptakerfi leiddi til þess að farið var að svipast um eftir manninum í Þjórsárdal og nokkru síðar fundust ferðafélagar mannsins á bensínlausum bíl.
Ástand þeirra var misgott. Þeir höfðu aðra sögu að segja en félaginn. Björgunarsveitir voru kallaðar til leitar og að auki var LHG fengin með þyrlu í leitina en kalsaveður var um nóttina. Áhöfn þyrlunnar fann manninn austanvert við Fossá um kl. 07:30 fáklæddan en nokkuð hressan. Allir voru mennirnir fluttir á lögreglustöðina á Selfossi en fóru frjálsir ferða sinna eftir því sem leið á daginn og sá síðasti um kvöldmatarleitið. Var þá komin nokkuð góð mynd á málið sem að lögum verður ekki fellt undir refsimál og verður rannsókn þess hætt.