Ekki hægt að útiloka stærri skjálfta
Í dag kl. 14:52 varð jarðskjálfti 4,6 að stærð, um 20 km NV af Húsavík. Fjöldi tillkynninga um að skjálftinn hafi fundist á Norðurlandi hafa borist Veðurstofunni. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt. Skjálftinn er framhald af jarðskjálftahrinu sem hófst fyrir norðan land þann 19. júní í sumar. Hrinan er sú öflugasta á Tjörnesbrotabeltinu í ríflega 40 ár. Þrír skjálftar af stærð 5-6 mældust á fyrstu dögum hrinunnar sem hefur verið kröftugust hingað til á tveimur stöðum, annarsvegar í Eyjafjarðarálnum um 25-45 km norðnorðaustur af Siglufirði og hinsvegar vestast á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu um 20 km norðaustur af Siglufirði.
„Með skjálftanum í dag aukast líkurnar á því að virknin færist austar eftir Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og við förum að sjá fleiri skjálfta nær Húsavík en áður“, segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands. „Rannsóknir á misgenginu benda til að enn sé innistæða fyrir stærri skjálfta allt að stærð 7 á þessu svæði og meðan að hrinan er í gangi eru auknar líkur á stærri skjálftum. Það er því full ástæða til þess að íbúar á svæðinu hafi varan á, til dæmis með því að tryggja lausamuni í húsum“, segir Kristín.
Ef að kæmi til slíkst skjálfta er hugsanlegt að hann valdi grjóthruni og skriðum auk þess sem þekkt er að sumir stærri skjálftar valdi flóðbylgjum. Hættan á skriðuföllum er ekki einungis bundin við norðanverðan Tröllaskaga og Flateyjarskaga eins og áður hefur verið greint frá heldur einnig austur á Melrakkasléttu.
Á meðfylgjandi mynd má sjá þau svæði sem skriðuföll geta átt sér stað í stórum skjálftum á brotabeltinu norðan við land. Mikilvægt er að fólk á svæðinu kynni sér leiðbeiningar Almannavarna um viðbrögð í jarðskjálftum og tryggi innanstokksmuni eins og hægt er.
Vill Veðurstofan í samráði við Almannavarnir koma almennum tilmælum til fólks um þessa hættur:
- Almenn tilmæli og upplýsingar til almennings verði jarðskjálfti >6 í nágrenni við Flatey/Húsavík
- Halda kyrru fyrir meðan að jarðskjálftinn ríður yfir
- Halda sig frá byggingum sem hafa skemmst
- Halda sig frá skriðuhlíðum
- Halda sig frá höfninni og strönd vegna hugsanlegrar flóðbylgju af hafi næstu klukkustundir
- Búast má við að tugir eftirskjálfta finnist í nærumhverfi skjálftaupptakanna næstu 24 tímana