,,Að setja á almennan nefskatt eins og veggjöld sem er íþyngjandi fyrir almenning án þess að nokkuð komi í staðinn er ekki til umræðu“
Ávarp forseta á formannafundi ASÍ
Kæru félagar, velkomin á formannafund ASÍ. Það er gott að nýta þetta tækifæri til að taka stöðuna á milli þinga. Við erum stödd í augnabliki í stóra samhenginu með fjöregg samstöðu launafólks í höndunum. Hreyfingu sem var til fyrir okkar daga og mun vonandi vera til eftir okkar daga líka. Okkur ber skylda til að horfa áratugi fram í tímann en ekki síður áratugi aftur í tímann.
Persónur og leikendur skipta litlu máli í stóra samhenginu og ákvarðanir skulu teknar með framsýni í huga en ekki augnabliksstöðu. Þó að það þyki skammaryrði að tala um Ísland sem smáríki þá erum við frekar fá og höfum verið einsleit hingað til þó það breytist hratt þessi misserin. Við þurfum því að líta í kringum okkur til að meta árangurinn af okkar starfi, mæla okkur á stærri mælistiku en við höfum hér innanlands. Og við komum vel út í samanburðinum.
Jafnrétti mælist með því besta í heiminum, hlutfall ungs fólks sem hvorki stundar nám né vinnu er með því lægsta sem þekkist, laun hér eru með því hæsta og almenn lífsgæði líka, ójöfnuður er til þess að gera lítill í samanburði við aðrar þjóðir. Við höfum sem sagt náð góðum árangri og það er ekki síst sterkri verkalýðshreyfingu að þakka. Óvíða hefur hreyfing launafólks haft jafn mikil áhrif og hér á landi. Á meðan nágrannaþjóðir okkar tóku ákvarðanir í ríkisstjórn um uppbyggingu félagslegs húsnæðis þá tók verkalýðshreyfingin á Íslandi þann bolta.
Sama má segja um mörg önnur félagsmál sem bæta lífsgæðin. Það má því með sanni segja að verkalýðshreyfingin hafi verið stór hluti af uppbyggingu velferðarkerfisins hér á landi, stærri en í flestum öðrum löndum. En það er vandratað einstígi hvenær við erum að axla ábyrgð á velferðarmálum sem með réttu á að vera í höndum stjórnvalda. Hvenær erum við að firra stjórnvöld ábyrgð á sameiginlegri velferð? Sem betur fer erum við í samtali við ríkistjórnina og vinnum með henni, veitum aðhald og beitum þrýstingi en félagar okkur víða um heim eiga hvorki í samtali við atvinnurekendur né stjórnvöld. Þeirra barátta snýst um að láta raddir sínar heyrast þar sem ákvarðanir eru teknar en við erum góðu heilli við það borð í krafti styrks okkar, þó hann megi vera meiri og sterkari.
En þó að við komum vel út í alþjóða samanburði þá er það ekki tilefni til að setjast með hendur í skauti. Staðan er langt frá því að teljast ásættanleg og ógnirnar eru víða. Það er ekki nóg að vera best í jafnrétti þegar jafnrétti hefur ekki verið náð. Það er ekki ásættanlegt að byggja góð hús þegar það er fólk sem býr ekki enn við húsnæðisöryggi og það er ekki í lagi að hafa náð árangri í bættum kjörum þegar fólk býr enn við fátækt og óttast um afkomu sína. Þegar eitt fyrirtæki hagnast um 8,7 milljarða á einu ári á meðan fólk sem missir heilsuna og er dæmt í fátækt, er eitthvað mikið að. Þegar heilu kaupstaðirnir þurfa að treysta á góðvild atvinnurekenda til að þrífast og lifa í stöðugum ótta við að arðurinn og atvinnutækifærin séu flutt á milli byggðarlaga er staðan ekki í lagi.
Á meðan jafn mikill ójöfnuður ríkir og raun ber vitni hefur verkalýðshreyfingin verk að vinna. Á meðan það er fólk í okkar samfélagi, hvort sem það er utan eða innan vinnumarkaðar, sem nær ekki endum saman er staðan ekki í lagi. En við höfum náð árangri, ekki bara í sögulegu samhengi heldur einnig síðasta árið. Þegar ég segi félögum okkar í öðrum löndum frá því að okkur hafi tekist að fjölga skattþrepum, að við séum að undirbúa stórsókn gegn launaþjófnaði, stórefla húsnæðisöryggi og leyfum okkur meira að segja að hafa skoðanir á vaxtaákvörðun seðlabankans þá á fólk erfitt með að trúa því. En það er okkar menning og uppbygging á samfélagi. Verkalýðshreyfingunni er ekkert óviðkomandi enda er vinnandi fólki ekkert óviðkomandi. Og í hinu pólitíska landslagi og umróti er eins gott að við stöndum í lappirnar. Við þurfum stöðugt að vera á varðbergi til að passa að þau markmið sem við fengum stjórnvöld inná síðasta vetur haldi.
Kraftarnir sem draga í aðrar áttir eru sterkir. Nýjasta dæmið er að þegar okkur hefur tekist að auka jöfnuð í gegnum skattkerfið með þrýstingi í gegnum kjarasamninga þá á að auka misrétti með því að lækka erfðafjárskatt. Meiri spámenn en ég, og reyndar flestir sem láta sig hagfræði varða með hag almennings í huga vara við því að auður flytjist óáreittur á milli kynslóða. Þannig verður til óeðlileg auðsöfnun og misrétti í kjölfarið. Þegar meira að segja Economist, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Aþjóðabankinn hvetja ríki og alþjóðasamfélagið til að draga úr auðsöfnun í gegnum skattkerfið þá ætla stjórnvöld hér á landi að fara í aðra átt til að tryggja að kvótapeningarnir flytjist nú örugglega kynslóð fram af kynslóð, auðurinn sem var í almannaeigu en er það ekki lengur.
Sama má segja um veggjöldin sem eru algerlega óútfærð og því erfitt að vera með eða á móti. Ég hef ekki skotið loku fyrir það að veggjöld verði sett upp en það þarf að vera á forsendum jafnaðar, að það vinni ekki gegn okkar markmiðum og komi ekki niður á þeim sem síst skyldi. Þannig má hugsa sér að nýta tilfærslu í gegnum barnabætur og húsnæðisbætur í samhengi við nýja álagningu, hvort sem það eru grænir eða gráir skattar eða hvaða litapallettu við viljum setja á það. Við eigum að vera til viðræðu um að efla barnabótakerfin í samhengi við græna skatta og auðvitað eigum við að þrýsta á um almennilegar almenningssamgöngur, umhverfi og fólki til heilla. En að setja á almennan nefskatt eins og veggjöld sem er íþyngjandi fyrir almenning án þess að nokkuð komi í staðinn er ekki til umræðu. Við ætlum hreyfingunni sæti við borðið þar sem þessar ákvarðanir verða teknar og það er óhugsandi að taka afdrifaríkar ákvarðanir sem snertir heimilisbókhald fólks án þess að við séum þar. Við þurfum ávallt að vera tilbúin í slíka umræðu sem hreyfing og þá þurfum við líka að hafa rætt málin innbyrðis.
Það er alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir innan okkar vébanda og skárra væri það nú í stærstu fjöldahreyfingu landsins. Við höfum samþykktir þingsins okkar til að byggja á en við verðum líka að finna leið til að tala saman um áríðandi mál og auka þekkingu taktfast og stöðugt. Liður í því er stofnun rannsóknarseturs vinnumarkaðarins sem tilkynnt var á mánudaginn og mun vonandi verða til að framleiða þekkingu á okkar eigin forsendum til að grundvalla ávarðanir á. En stofnuninni er líka ætlað að vera vettvangur til að miðla þeirri þekkingu sem verið er að framleiða annars staðar, bæði hérlendis og erlendis, og við þurfum að vita af til að verða betri og skipulagðari í okkar baráttu.
Skipulag hreyfingarinnar er annað mál sem hefur verið mér hugleikið og ég hef reynt að setja sjálfa mig og aðra í þankaganginn: Hvernig myndum við byggja upp hreyfingu í dag ef við byrjuðum með autt blað? Þegar ég set sjálfa mig í þau spor þá er það fyrsta sem ég hugsa um verðmætin í hreyfingunni okkar. Nálægðin við félagsmenn, staðarþekkingin og stuttu boðleiðirnar, möguleiki alls félagsfólks til þátttöku og skoðanaskipta, opnir fundir og gott aðgengi. Þetta eru gríðarleg verðmæti. En ég er líka fullviss um að það sé hægt að gera betur og þá aðallega til að gæta hagsmuna okkar í ákveðnum atvinnugreinum. Það er ekkert sérstaklega rökrétt að hafa skörp skil á milli almenna markaðarins og hins opinbera í verkalýðshreyfingu þegar mörkin í raunveruleikanum þar á milli eru að verða sífellt daufari.
Sömuleiðis erum við að bregðast okkar félagsfólki þegar barátta um sálirnar á milli stéttarfélaga kemur niður á þjónustu og réttindum. Vinnandi fólk á Íslandi á skýlausa kröfu á að við finnum bestu leiðirnar til að gæta hagsmuna þess, þjóna því og búa til sem mestan slagkraft. Það væri því rökrétt að staðbinda stéttarfélög eins og er í dag, en hafa jafnframt atvinnugreinasamtök á landsvísu; Samband vinnandi fólks í ferðaþjónustu, samband vinnandi fólks í veiðum og fiskvinnslu, samband vinnandi fólks í velferðar- og almannaþjónustu, samband vinnandi fólks í orkufrekri starfsemi og svo framvegis. Með slíkri uppbyggingu gæfist okkur bæði færi á að veita félagsfólki aukinn faglegan styrk en líka að búa til þekkingu út frá atvinnugreinum og vera þrýstiafl þegar ákvarðanir eru teknar sem snerta greinarnar. Mig langar að fá ykkur til að hugsa þetta með mér, ræða þetta áfram í ykkar félögum og velta við öllum steinum. Mig langar líka til að biðja ykkur um að setja upp gleraugu kynja, stéttar og uppruna í þessum pælingum. Það er nefninlega ekki nóg að kjósa konu sem forseta ASÍ ef skipulagið stenst ekki mælikvarða kynjajafnréttis að öðru leyti og með því að atvinnugreinaskipta landssamböndum er vonandi hægt að draga úr stéttaskiptingu innan greinanna sjálfra.
En í núverandi skipulagi getum við tekið hænuskref í átt að betri þjónustu og sterkari réttindum fyrir vinnandi fólk. Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur samþykkt að undirrita viljayfirlýsingu við BSRB um réttindaflutning félagsmanna milli sjúkra- og styrktarsjóða þannig að fólk þurfi ekki að byrja á byrjunarreit ef það flytur sig á milli almenna- og opinbera markaðarins. Við munum svo vonandi reka smiðshöggið á þennan réttindaflutning á næsta þingi okkar. Í því samhengi langar mig að velta upp þeirri hugmynd að sjúkrasjóðir sameinist undir einum hætti innan ASÍ til að dreifa áhættu og álagi vegna atvinnugreina, landssvæða og kynja. Það væri leið til að styrkja samtryggingarhugsjónir okkar enn frekar því það er alveg ljóst að áföll geta og hafa dunið yfir staðbundið eða atvinnugreinabundið sem setur óeðlilegan þrýsting á minni sjóði. Sömuleiðis er það mjög landssvæðabundið hvaða þjónustu og styrki hægt er að bjóða upp á og það er varla sanngjarnt að það fari eftir búsetu hvaða rétt til fyrirbyggjandi styrkja þér býðs. Setjum þessar pælingar á dagskrá og leyfum þeim að malla áfram í grasrótinni án þess að breyta með boðvaldi.
Kæru félagar,
Nú keppast fræðingar við að rýna í framtíðina, hvaða breytingar eru væntanlegar með svokölluðu fjórðu iðnbyltingu og hvaða viðbrögð þurfa að vera við hamfarahlýnun. Breytingarnar eru hraðar og skýrslur eru úreltar um leið og þær birtast. Það sem við vitum hins vegar er að breytingar eru staðreynd og við þurfum að vera tilbúin. Við höfum tekist á við breytingar áður sem samfélag og staðið okkur vel. Þegar iðnaðarsafnið á Akureyri er heimsótt rennur upp fyrir konu hvaða gríðarlegu breytingar hafa átt sér stað í atvinnuháttum eins samfélags á til þess að gera fáum árum. Úr því að vera iðnaðarbær varð Akureyri þekkingar- og menningarbær. Á Grandanum í Reykjavík eru komin hvalaskoðunarfyrirtæki, hótel og tölvuleikjafyrirtæki þar sem áður voru veiðar og fiskvinnsla fyrir tveimur áratugum. Ungt fólk fær frekar eldskírn á vinnumarkaði í þjónustugreinum en fiskvinnslu í dag og í framtíðinni verður það kannski endurvinnsla og verðmætasköpun úr sorpi sem verður aðal iðnaðurinn.
Við vitum það eitt að breytingarnar í dag eru hraðari og örari en við höfum áður séð. Ef fortíðin spáir fyrir um framtíðina (sem er nú yfirleitt raunin) þá munu störf koma í stað starfa, atvinnugreinar koma í stað atvinnugreina. Við stöndum frammi fyrir risastóru verkefni sem er að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu til að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.
Eitt af því mest spennandi sem er að gerast í heiminum í kolefnabindingu er að gerast í gegnum rannsóknir hér á landi þar sem okkar besta vísindafólk sýnir framsýni, dug og færni. Getur það verið að kolefnisbinding sé nýja ígildi stóriðju hér á landi? Og er þá ekki kominn tími til að við gerum alvöru úr því að hampa iðn- og tæknigreinum í stað þess að leggja áherslu á bóknámsgreinar. Að standa loksins við stóru orðin í menntamálum.
Þó að við sjáum illa inn í framtíðina þá skulum við vera fullmeðvituð um það að við erum fær um breytingar án þess að gefa nokkurn afslátt á kröfunni um mannsæmandi líf með virðingu fyrir afkomu og lífgæðum. Ef við hefðum gengist inná að lækka laun eða draga úr lífsgæðum til að keppa við laun í öðrum löndum þegar alþjóðavæðingin varð staðreynd hefðum við verið í mun verri málum í dag. Það má hins vegar segja að sterk verkalýðshreyfing hér á landi og í nágrannalöndunum þar sem ekki var gefinn afsláttur af launum þrátt fyrir alþjóðasamkeppni hafi styrkt framfarir og tækniþróun. Og við atvinnurekendur segjum við „verði ykkur að góðu“. Þannig getum við ekki keppt við önnur lönd í að halda niðri launum í ferðaþjónustu, við verðum að keppa í gæðum og nýsköpun á þeim vettvangi sem öðrum.
Hvað ætli hugmyndin um Ísland sem jafnréttisparadís hafi gefið af sér í atvinnutækifærum alþjóðlega? Þó ég efist um mælikvarðana og sætti mig ekki við að vera þæg og stillt á meðan jafnrétti er ekki náð að þá hefur það mikið að segja um orðspor okkar og virðingu í aþjóðasamfélaginu. En jafnrétti er ekki bara útflutningsvara heldur ber að stefna að jafnrétti og jöfnuði vegna þess að þannig er siðað samfélag, það er réttlátt og sanngjarnt að auka jöfnuð og jafnrétti og það er eini raunverulegi mælikvarðinn. Það er ágætt ef viðsemjendur þeirra opinberu starfsmanna sem nú sitja við samningaborðið, gera sér grein fyrir þessu því það er með öllu ólíðandi að opinberir starfsmenn, að stórum hluta konur í láglaunastörfum, hafi verið samningslausir í 7 mánuði. Vinnandi fólk hefur sýnt þolinmæði fram úr hófi en hún er á þrotum og ég heyri vaxandi ólgu í öllum landshornum. Mikil er ábyrgð þeirra sem ætla ekki að hlusta á þessar raddir og stefna fólki sem annars er seinþreytt til vandræða út í átök.
Baráttan næstu árin og áratugina mun snúast um að vinnandi fólk fái hlutdeild í þeim arði sem mun skapast með aukinni tækni. Það er hægt að gera og verður gert með kröfu um hærri laun en ekki síður um styttingu vinnudags. Það er eitt af stóru málunum og við erum lögð af stað í þá vegferð að minnka vinnuna í 6 tíma á dag sem ég efa ekki að verður framtíðin hér á norðuhveli jarðar allavega. Við ætlum að ræða þessi fyrstu skref hér á eftir, sem við náðum í samningunum síðasta vetur, hvernig útfærslan á að vera og hvaða ávinning fólk sér af því en ekki síður hvað framtíðin ber í skauti sér, hvaða áherslur við eigum að leggja til að gera enn betur til að auka lífsgæðin. Verður það þannig að við vinnum 6 tíma á dag og ein klukkustund fer í endurmenntun og fræðslu til dæmis? Slagorðið um átta tíma vinnu, átta tíma svefn og átta tíma ánægju varð frægt um allan heim fyrir hundrað árum og það voru samdir slagarar um slíka kröfu. Krafan um 6 tíma vinnu, eins tíma menntun, níu tíma ánægju og átta tíma svefn er ekki alveg jafn þjál krafa og sennilega ekki innblástur fyrir slagarahöfunda en gæti orðið okkar krafa engu að síður. Það er kominn tími á nýja kröfu hundrað árum síðar.
En kæru félagar,
Þegar ný forysta tók við stjórnartaumunum hjá ASÍ fyrir tæpu ári þá var málefnanefndum innan samtakanna ætlað stærra hlutverk en áður og þær voru stokkaðar upp. Í haust hafa verið haldin tvö mjög áhugaverð málþing á vegum fastanefnda ASÍ og fleira er í farveginum. Menntamálanefnd hélt málþing um fjórðu iðnbyltinguna og fyrsta málþingið í röð þriggja um umhverfismál setti þann málaflokk á dagskrá okkar svo um munaði. Við getum ekki og eigum ekki að skila auðu í þeim samfélagsbreytingum sem krafist verður næstu ár í átt að sjálfbærum samfélögum. Verkalýðshreyfingin um heim allann hefur mótað sér stefnu sem nefnist á ensku „just transition“ eða „sanngjörn umskipti“ og miðar að því að umbreyta okkar efnahagskerfi þannig að breytingarnar framundan leiði til fleiri starfa, betri starfa, heilbrigðari starfa og aukins jöfnuðar og jafnréttis. Ef verkalýðshreyfingin skilar auðu er það ávísun á aukna samþjöppun auðs, vaxandi fátækt og átök eins og hefur oft orðið raunin við mikil umskipti innan samfélaga.
Við þurfum að mennta og uppfræða okkur, vera ávallt á varðbergi, bjóða nýjar lausnir og vera tilbúin til verka. Það er von mín að ný og róttæk umhverfisstefna verði samþykkt á þingi ASÍ eftir ár, sem getur orðið vegvísir okkar í starfinu framundan. Öflin sem við er að eiga eru fjármagnseigendur sem leita nú allra leiða til að maka krókinn og tryggja eigið öryggi án tillits til almennings, öfl sem eru tilbúin til að varpa lýðræðinu fyrir róða fyrir eigin gróða. Og þessi öfl eru sterk, í alþjóðsamfélaginu og jafnvel hér innanlands líka. Við því er aðeins eitt svar. Samstaða fjöldans og það vill svo vel til að við erum með heila fjöldahreyfingu sem er sterk, úrræðagóð og virk og stöndum því vel að vígi gagnvart framtíðinni.
Ég segi þennan formannafund Alþýðusambands Íslands settan.