Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til sérstakra aðgerða til að mæta vanda rekstraraðila í veitingaþjónustu, sem hafa orðið fyrir miklum búsifjum í yfirstandandi bylgju heimsfaraldursins. Þannig samþykkti ríkisstjórnin í dag að leggja fyrir Alþingi frumvarp sem heimilar fyrirtækjum í tilteknum flokkum veitingaþjónustu, sem hafa orðið að sæta takmörkunum á opnunartíma, að fresta staðgreiðslu skatta og greiðslu tryggingagjalds. Auk þess verður umsóknarfrestur vegna almennra viðspyrnustyrkja fyrir nóvember 2021 framlengdur.
Þá er unnið að frumvarpi um sérstakan veitingastyrk sem sömu fyrirtækjum stendur til boða vegna minni tekna frá desember 2021 út mars 2022. Enn fremur er unnið að framlengingu lokunarstyrkja í ljósi hertra takmarkana, og að auki horft til þess hvar þörf er fyrir stuðning á öðrum sviðum vegna takmarkana næstu vikur. Loks var í fjárlögum ársins 2022 veitt heimild fyrir greiðslu styrkja til íþrótta- og æskulýðsfélaga sem hafa orðið fyrir tekjutapi vegna viðburða sem fella þurfti niður vegna faraldursins.
Stefnt er að því að frumvarp um skattfrestanir og framlengingu á umsóknarfresti verði lagt fram um leið og Alþingi kemur saman á mánudag, 17. janúar, en frumvarp um veitingastyrk og önnur úrræði nokkrum dögum síðar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Við mörkuðum þá stefnu strax í upphafi að styðja við þá sem verða fyrir verulegu tjóni vegna faraldursins og sóttvarnartakmarkana. Þeirri stefnu munum við áfram fylgja eins lengi og þarf. Fyrirhugaðar stuðningsaðgerðir miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið.“
Hægt að fresta allt að tveimur greiðslum á staðgreiðslu og tryggingagjaldi
Frá því samkomutakmarkanir voru hertar í nóvember er merkjanlegur samdráttur í greiðslukortaveltu hjá fyrirtækjum í veitingarekstri, ólíkt þróun í hagkerfinu í heild. Hertar takmarkanir hafa þannig haft mikil áhrif á starfsemi ákveðinna fyrirtækja í veitingarekstri og leitt til samdráttar í tekjum þeirra. Á þetta fyrst og fremst við um fyrirtæki með vínveitingaleyfi, s.s. veitingahús og bari.
Þegar hafa aðilar í veitingaþjónustu fengið um 11 milljarða króna í beinan stuðning úr ríkissjóði vegna heimsfaraldursins. Í ljósi stöðunnar nú þarf hins vegar að koma enn frekar til móts við vanda þessara fyrirtækja og koma í veg fyrir að tímabundinn lausafjárvandi þeirra leiði til langvarandi tjóns fyrir hagkerfið allt.
Af þessum sökum hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um viðspyrnustyrki. Frumvarpið snýr að launagreiðendum með meginstarfsemi í flokki II eða III samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana. Þeim verður heimilað að fresta allt að tveimur greiðslum á afdreginni staðgreiðslu launa og tryggingagjalds sem eru á gjalddaga 1. janúar til og með 1. júní á árinu 2022.
Hægt verður að sækja um þessar frestanir á vef Skattsins fyrir hvern eindaga. Vegna gjalddagans 1. janúar sem er á eindaga 17. janúar skal umsókn þó hafa borist ekki seinna en 31. janúar 2022.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að umsóknarfrestur vegna viðspyrnustyrkja fyrir nóvembermánuð 2021 verði framlengdur til 1. mars 2022, en þeir styrkir ná til allra atvinnugreina að því gefnu að tekjufallsviðmið séu uppfyllt. Frestur til að sækja um viðspyrnustyrki rann út 31. desember 2021.
Veitingastyrkir bæta tjón vegna minni umsvifa
Fjármála- og efnahagsráðherra mun einnig leggja fyrir Alþingi á fyrstu dögum þess frumvarp um styrki til þeirra aðila í veitingarekstri sem hafa orðið fyrir sérstaklega miklum áhrifum af sóttvarnarráðstöfunum og minnkandi umsvifum umfram aðra geira hagkerfisins.
Stefnt er að því að þeir aðilar sem eru með veitingaleyfi II og III og hafa orðið fyrir a.m.k. 20% tekjufalli í desember 2021 og út mars 2022 vegna takmarkana á opnunartíma geti sótt um styrk sem geti numið allt að 12 milljónum króna fyrir tímabilið. Styrkfjárhæðin ræðst annars vegar af fjölda stöðugilda og hins vegar af tekjufalli fyrirtækisins. Ríkisstjórnin mun tryggja fjármögnun úrræðisins umfram þann eina milljarð króna sem þegar var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins.
Fjölbreyttur stuðningur frá upphafi heimsfaraldurs
Frá upphafi heimsfaraldursins í mars 2020 hafa stjórnvöld veitt fjölbreyttan stuðning í úrræðum fyrir einstaklinga og rekstraraðila. Má þar nefna viðspyrnu- og lokunarstyrki, útgreiðslu séreignarsparnaðar, sérstakan barnabótaauka og fleiri aðgerðir til verndar og viðspyrnu vegna heimsfaraldursins en heildarumfang COVID ráðstafana árin 2020 og 2021 nam 215 milljörðum króna.
Helstu sértæku efnahagsúrræði stjórnvalda vegna faraldursins runnu sitt skeið á nýliðnu ári en samhliða kröftugum efnahagsbata á árinu hafði aðsókn í úrræðin minnkað . Þá hafa sértæk úrræði stjórnvalda vegna faraldursins nýst fyrirtækjum í ferðaþjónustu vel, sem og fyrirtækjum í veitingarekstri. Alls hafa fyrirtæki í veitingarekstri fengið 11 ma.kr. í beina styrki frá hinu opinbera auk þess sem greinin hefur nýtt sér ríkistryggð lán fyrir ríflega 2 ma.kr. og skattfrestanir.