Uppfært 17. janúar kl. 14:30
Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi. Of snemmt er að fullyrða um hraðann á landrisinu þetta skömmu eftir eldgos. Sérfræðingar munu halda áfram að meta gögn frá GPS mælum á svæðinu til að fá heildarmat á stöðuna. Einn af mælunum sem var staðsettur norður af Grindavík fór undir hraun, en rúmlega 20 GPS mælar eru á svæðinu sem notast er við.
Skjálftavirkni hefur verið væg yfir kvikuganginum síðasta sólarhringinn. Samkvæmt reiknilíkönum liggur kvika grunnt í suðurenda kvikugangsins, þar virðist landið vera mikið sprungið og kvikan eigi því auðvelt með að komast upp á yfirborðið. Áfram eru því líkur á að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara.
Áfram er hætta innan Grindavíkur í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær. Miklar hreyfingar hafa átt sér stað í tengslum við sigdalinn í austurhluta bæjarins. Hreyfingarnar urðu að mestu leyti á þeim sprungum sem mynduðust 10. nóvember og þegar höfðu verið kortlagðar.
Gasmengun mældist við vinnu ofan í brunnum tengdum veitukerfi innan Grindavíkur í gær. Veðurstofan vaktar ekki staðbundna gasmengun innan Grindavíkur. Skoða þarf betur hvort gasmengunin er tengd því að kvika liggur mjög grunnt á svæðinu. Það skal tekið fram að hættuleg gasmengun er meðal þeirra atriða sem nefnd eru í hættumatinu sem nú gildir fyrir Grindavík.
Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumatskort. Engar breytingar eru á heildarhættumati á svæðunum frá því sem áður var. Kortið tekur gildi kl. 17 í dag og gildir fram á föstudaginn 19. janúar kl. 17 að öllu óbreyttu.