6.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 31. mars 2023
Auglýsing

Sjókvíaeldi með íslenska laginu

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu sjókvíaeldis hér á landi er enginn skemmtilestur.

Þórunn Sveinbjarnardóttir  Alþingismaður
Þar afhjúpast með skýrum hætti hvernig ekki á að byggja upp nýja atvinnugrein: fyrirtækin ráða ferðinni og stjórnvöld fylgja í kjölfarið alltaf nokkrum skrefum á eftir. Þannig næst hvorki að byggja upp traust eftirlit með atvinnugreininni og ekki heldur að byggja ákvarðanir um nýtingu á haldbærum vísindarannsóknum. Og þannig næst ekki að tryggja fyrirfram eðlilega gjaldtöku af rekstraraðilum í sjókvíaeldi.
Úr skýrslunni má einnig lesa einbeittan vilja fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins til þess að aðlaga lagasetningu og reglugerðir að óskum rekstraraðila og lobbíista frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Samkrull Sjálfstæðisflokksins og útgerðarinnar virðist vera fasti í íslenskum stjórnmálum og hagsmunagæsla flokksins fyrir hönd rekstraraðilanna er grímulaus.

Úthlutun sameiginlegra gæða án endurgjalds er því miður reglan hér á landi

Það er í sjálfu sér ekki við fyrirtækin að sakast því þau fara eins langt og lög og reglur leyfa þeim. En það er algerlega óviðunandi að ráðuneyti og stofnanir þess sinni ekki þeirri skyldu sinni að innleiða löggjöf með fullnægjandi hætti og láti undir höfuð leggjast að afla fjár til eftirlits og nauðsynlegra rannsókna. Um það fjallar stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar.
Sveitarstjórnafólk í héraði segir fátt koma á óvart í skýrslunni. Það hafi oft vakið athygli á losaralegri stjórnsýslu og tilfinnanlegum skorti á eftirliti með sjókvíaeldinu. Einnig hefur margsinnis verið bent á að sveitarfélög hafi litlar beinar tekjur af starfseminni. Ofan á þetta bætist sú staðreynd að ríkisstjórnin hætti við áform sín um að taka fyrsta skref í átt til gjaldtöku við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023.
Úthlutun sameiginlegra gæða án endurgjalds er því miður reglan hér á landi og í sjókvíaeldinu hafa ráðherrar hvorki nýtt heimildir í lögum til gjaldtöku á atvinnugreinina né til að þess að bjóða út eldissvæðin. En gæðanna njóta án nokkurs vafa norsku fiskeldisrisarnir þrír sem hér starfa.