Singapúr og aðildarríki EFTA hafa sammælst um að hefja viðræður að samkomulagi um rafræn viðskipti. Þetta var ákveðið á fjarfundi fulltrúa EFTA-ríkjanna og Singapúr í morgun.
Markmið slíks samkomulags er að ákvarða sameiginlegan lagaramma utan um rafræn viðskipti milli Singapúr og EFTA-ríkjanna, þ.e. Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein. Á fundinum voru meðal annars rædd ákvæði um bann við tollheimtu af rafrænum sendingum, rafræna auðkenningu og traustþjónustu, rafræna tollafgreiðslu, rafrænan aðgang opinberra gagna, neytendavernd og rafrænar greiðslur.
„Við erum sannfærð um að samkomulag um rafræn viðskipt skapi ný tækifæri og stuðli að frjórri samvinnu á milli fyrirtækja í þessum ríkjum sem starfa á ýmsum sviðum, til dæmis grænum lausnum, ferðaþjónustu, fjártækni og hátæknigeiranum,“ segir Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu en hann tók þátt í fundinum fyrir hönd Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra sem er í embættiserindum erlendis.
Umfang rafrænna viðskipta hefur vaxið jafnt og þétt undanfarinn áratug og tók stökk í heimsfaraldri COVID-19. Regluverk alþjóðaviðskiptakerfisins hefur hins vegar ekki haldið í við þessa þróun.