Halla Tómasdóttir bauð sig í dag fram til embættis forseta Íslands.
„Forseti Íslands gegnir mikilvægu hlutverki og farsælum forseta þykir vænt um og skilur mikilvægi hverrar manneskju og hvers byggðarlags okkar einstöku þjóðar án tillits til pólitískra dægurmála,“ sagði Halla í upphafi stefnuræðu sinnar.
Halla bauð sig fram til embættisins árið 2016 og var þá sá frambjóðandi sem fékk næstflest atkvæði, á eftir Guðna Th. Jóhannessyni og hlaut 30% atkvæða.
Halla er með meistaragráðu í rekstrarhagfræði og er forstjóri fyrirtækisins B team en það eru samtök sem starfa á heimsvísu að því markmiði að leiða umbreytingu í viðskipta- og stjórnunarháttum í átt til betra samfélags. Halla hefur unnið hjá fyrirtækjum á borð við Pepsi og M&M/Mars, verið framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og tók þátt í uppbyggingu Háskólans í Reykjavík.