-2.2 C
Reykjavik
Miðvikudagur - 1. febrúar 2023
Auglýsing

Björgólfur Thor Björgólfsson sleppur við 237.709.297 krónu greiðslu skv. dómi

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. tapaði máli á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, en
Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. krafðist þess að Björgófur greiddi sér 237.709.297 kr. með vöxtum og dráttarvöxtum. – Krafan reyndist fyrnd á hendur Björgólfi.
Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. krafðist þess í málinu að Björgólfi yrði gert að greiða sér skaðabætur vegna tjóns sem félagið telur sig hafa orðið fyrir vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. hinn   12. desember 2007 á hlutabréfum að nafnverði 6.601.624 kr. fyrir samtals 237.709.297 krónur.
Uppgjör vegna kaupanna fór fram 27. desember 2007. Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. er svo nefnt sem stefnandi í dómnum. Stefnandi telur að gögn málsins sýni að á þeim degi sem hann keypti fyrrgreind hlutabréf hafi stefndi með saknæmum hætti haldið frá honum og öðrum markaðsaðilum upplýsingum um að Samson eignarhaldsfélag ehf. (hér eftir Samson) færi með meirihluta atkvæða á hluthafafundum í Landsbanka Íslands hf. og að bankinn hefði stundað umfangsmiklar lánveitingar til félaga sem voru undir stjórn stefnda.
Stefnandi telur að sú staða að Samson fór með meirihluta atkvæða á hluthafafundum í Landsbanka Íslands hf. hefði átt að leiða annars vegar til þess að Landsbankinn teldist vera dótturfélag Samsons og hins vegar til þess að Samson hefði verið skylt að gera öðrum hluthöfum kauptilboð (yfirtökutilboð) í hlutabréf þeirra. Fyrrgreindar upplýsingar hafi verið mikilvægar fyrir alla sem vildu fjárfesta í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf.
Stefndi hafnaði kröfum stefnanda og tók fram að verið sé að krefjast bóta fyrir tjón vegna hluta sem stefnandi keypti í Landsbanka Íslands hf.; líkt og stefndi, sem aldrei tók sæti í bankaráði Landsbankans, hafi borið einhverja stjórnunarábyrgð á bankanum. Björgólfur kveður viðskiptin hafa farið fram fyrir opnum tjöldum og að atburðarásin hafi verið einföld, en stefnandi reyni að flækja hana. Björgólfur taldi ekki lagalegar forsendur fyrir málatilbúnaði stefnanda og taldi hann kröfur stefnanda ekki aðeins vera fyrndar, heldur horfi Venus hf. m.a. fram hjá meginreglum laga um takmarkaða ábyrgð hluthafa.
Hinn 19. desember 2007 festi stefnandi kaup á hlutabréfum í Landsbankanum. Stefnandi tapaði hlutabréfum þessum í bankahruninu. Hann telur að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna tapsins. Í þessum þætti málsins er deilt um það hvort dómkrafan sé fyrnd. Stefnandi byggir á því að krafan fyrnist á 10 árum, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905, og sé hún því ófyrnd. Stefndi hafnar því og byggir á því að lög nr. 150/2007 eigi við og að krafan fyrnist á fjórum árum og sé hún því fyrnd.

Stefnandi byggir á því að krafa stefnda um fyrningu sé vanreifuð í greinargerð. Greinargerð stefnda ber skýrlega með sér að hann telji kröfuna fyrnda þegar málið var höfðað og einnig að fyrningarfresturinn sé fjögur ár, samanber 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
Í fyrstu þarf að taka afstöðu til þess hvort skaðabótakrafa stefnanda sé krafa utan eða innan samninga. Kaup stefnanda á hlutabréfum í bankanum eru byggð á samningi. Hins vegar verða hlutabréfin verðlaus við hrun bankakerfisins í október 2007. Bankahrunið var algjörlega óháð því samningssambandi sem var til staðar við hlutabréfakaupin. Tjónið verður vegna atburða/hamfara er gengu yfir þjóðina alveg óháð samningssambandi aðila.
Dómurinn lítur því svo á að um sé að ræða skaðabótakröfu utan samninga.
Eins og atvikum málsins er háttað telur dómurinn að ekki eigi að miða upphaf fyrningarfests við kaupdag hlutabréfanna heldur þegar tjónið kom fram.
Í lögum nr. 150/2007, sem gildi tóku 1. janúar 2008, er nýmæli um fyrningu skaðabótakrafna. Í 9. gr. laganna er kveðið á um að krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk „nauðsynlegar upplýsingar um tjónið“ og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Ákvæðið tekur m.a. til skaðabóta utan samninga. Samkvæmt þessu ákvæði miðast stofnun kröfunnar ekki við kaupin á hlutabréfunum, svo sem stefnandi heldur fram, heldur er miðað við tjónið, það er krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið.
Í athugasemd með frumvarpi sem varð að lögum nr. 150/2009 segir um 9. gr. að upphaf fyrningar skuli telja frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgur var fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Er því hér um huglægt atriði að ræða. Þá segir að almennt hafi þó verið litið svo á að fyrningarfresturinn byrji að líða þegar tjónþoli fékk eða bar að afla sér nauðsynlegra upplýsinga um fyrrgreinda tvo þætti, þ.e. tjónið sjálft og þann sem ábyrgðina bar. Í athugasemdunum segir svo: „Þá fyrst hefur verið talinn grundvöllur fyrir hann til að setja fram kröfu sína um bætur. Hann getur hins vegar ekki setið aðgerðalaus eða borið við vanþekkingu sinni á réttarstöðu sinni.
Fyrningarfrestur samkvæmt ákvæði 9. gr. fer því ekki eftir persónubundinni vitneskju einstakra tjónþola um réttarstöðu sína, heldur eftir því hvenær tjónþoli bjó yfir þeirri vitneskju að honum væri fært að leita fullnustu kröfu sinnar. Einstaklingsbundin vitneskja um lagareglur ræður ekki fyrningarfresti hér frekar en öðrum lagaskilyrðum.“
Telja verður að upphaf fyrningarfrestsins sé sá dagur er bankahrunið varð, þ.e. 7. október 2008. Þá hafi stefnandi vitað að hrunið myndi leiða til tjóns fyrir hann. Ætla má að það hafi ekki tekið stefnanda langa yfirlegu að gera sér grein fyrir því hver að hans mati bæri ábyrgð á ætluðu tjóni hans.
Samkvæmt 15. gr. laga nr. 150/2008 er fyrningu slitið með málssókn kröfuhafa á hendur skuldara til að fá dóm fyrir kröfunni. Dómsmál þetta var höfðað með stefnu birtri í september 2016. Er krafan því löngu fyrnd. Sömuleiðis var krafan löngu fyrnd við þingfestingu stefnu málsóknarfélagsins hinn 27. október 2015.
Með vísan til þess sem að framan greinir er niðurstaða málsins sú að krafa stefnanda er fyrnd. Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi er sýknaður af kröfu stefnanda.
Stefnandi, Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.