Þórarinn Leifsson hlaut Rauðu hrafnsfjöðrina, verðlaun fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins 2017, á aðalfundi lestrarfélagsins Krumma sl. föstudag. Verðlaunalýsingin birtist í skáldsögu Þórarins Kaldakoli, sem kom út á síðast ári
Þetta var í tólfta sinn sem Rauða hrafnsfjöðrin er veitt, en meðal vinningshafa fyrri ára eru Sigurbjörg Þrastardóttir, Bergsveinn Birgisson, Elísabet Jökulsdóttir, Megas, Auður Ava Ólafsdóttir og Sjón.
Á meðfylgjandi mynd, sem öllum er heimilt að nota, sést þegar Pétur Blöndal, forseti Lestrarfélagins Krumma, afhendir Þórarni Leifssyni Rauðu hrafnsfjöðrina.
Verðlaunalýsing Þórarins var svohljóðandi:
„Þá sá hann tvo hvíta belgi sem hann hélt fyrst að væru litlir feitir englar úr Rubens-málverki, en þegar betur var að gáð reyndust þetta vera rasskinnar konu, óvenju stórar því þær flöttust út á glerinu eins og risastórar hvítar pönnukökur. Við rasskinnarnar loddu eistu sem hreyfðust nær og fjær eins og pendúlar fastir við loðna fótleggi, hálfklædda í jakkafatabuxur og karlmannsskó en þrengdu sér núna á milli snjóhvítra læra og leggja í leðurstígvélum.“