Upp úr klukkan þrjú í dag var staðfest að ný sprunguopnun hafi myndast við gosstöðvarnar. Um litla opnun er að ræða sem staðsett er inn á hraunbreiðu og þétt upp við annan gíg á svæðinu. Ekki er líklegt að þessi nýja opnun breyti miklu um framgang gossins.
Á fundi vísindaráðs fyrr í vikunni var talsvert rætt um möguleikan á að greina fyrirvara um nýjar sprunguopnanir. Um klukkan 13:20 í dag tóku náttúruvársérfræðingar á vakt Veðurstofunnar eftir lækkun í styrk á óróamælum næst gosstöðvunum. Staðfest hefur verið að styrkur í óróa hefur fallið í um klukkustund, eða lengur, áður en nýjar gossprungur opnast við Fagradalsfjall. Eftir að vakt Veðurstofunnar varð vör við lækkun í óróastyrk var tilkynning send á almannavarnir og björgunarsveitarmenn sendar á staðinn til þess að fylgjast vel með hvort breytingar yrði á gosvirkni eða nýjar sprungur væru að opnast.
Stuttu síðar kom tilkynning frá vettvangi að ný opnun hafi myndast.
Nýja opnunin sést hér fyrir miðri mynd og er staðsett þétt við gíg sem áður hafði myndast. (Ljósmynd: Almannavarnir)
Eins og rætt var á fundi vísindaráðs síðasta fimmtudag er fylgni milli þess að styrkur óróa falli og að nýtt gosop myndast. Hinsvegar eru einnig nokkur dæmi um að styrkur á óróamælum minnki án þess að ný gosop myndist. Eins er ekki hægt að greina mögulega staðsetningu á nýjum opnunum út frá óróamælingunum.
Hér er hægt er að lesa stutta fróðleiksgrein um greiningu á styrk óróa og möguleg tengsl við myndun nýrra sprunguopnanna við Fagradalsfjall.
Sólarhringsvakt Veðurstofunnar mun halda áfram að vakta svæðið og fylgjast sérstaklega vel með breytingum á óróa sem gefur vísbendingar um að ný gosop gætu myndast við Fagradalsfjall.