Í fyrradag var opnað fyrir veiði í Kleifarvatni, en það opnar 15. apríl fyrir veiði. Það er klárlega spennandi að veiða í Kleifarvatni með bjarmann af eldgosinu í bakgrunni! Það verður spennandi að sjá hvernig sumarið verður í Kleifarvatni en þar veiðast alltaf nokkrir fallegir urriðar á hverju ári. Bleikjustofninn í vatninu er flottur og margir veiðimenn sem hafa komist upp á lag með að ná bleikjunni þar. Stundur þarf að veiða mjög djúpt.
Þann 19. apríl verður opnað fyrir veiði í Meðalfellsvatni en það gefur yfirleitt talsvert af sjóbirtingi á vorin. Vatnið er sérlega gott varðandi aðgengi að vatninu og ekki nema um 30 mínútna fjarlægð frá höfuðborginni. Tilvalið fyrir veiðimenn að kíkja þangað á mánudaginn. Við hvetjum veiðimenn samt til að sleppa sjóbirtingum á vorin og svo er auðvitað sleppiskylda á niðurgöngulaxi.
Á þriðjudaginn verður opnað fyrir veiði í Þingvallavatni í þjóðgarðinum. Við minnum á að aðeins má veiða á flugu 20. apríl – 1. júní. Auk þess verður að sleppa öllum veiddum urriðum á þessu tímabili. Urriðastofninn í vatninu hefur vaxið á hverju ári og það verður spennandi að fylgjast með hvernig urriðaveiðin í þjóðgarðinum fer af stað. Það sem gerir veiðina mest spennandi á urriðatímanum er sú að þjóðgarðurinn geymir gífurlega stóra og öfluga urriða. Þegar þú ferð til veiða borgar til að fara vel yfir veiðibúnaðinn áður því þú vilt ekki lenda í því að undirlínan standi á sér eftir að þú hefur sett í urriða lífs þíns!
Fimmtudagurinn 22. apríl verður kærkominn. Þá er sumardagurinn fyrsti loksins runninn upp og við fögnum því með því að veiða í Elliðavatni, en vatnið opnar fyrir veiði sumardaginn fyrsta ár hvert. Þeir sem þekkja til segja að stærstu fiskarnir veiðist helst á vorin. Í vatninu er bæði bleikja og urriði. Mest veiðist af urriða í vorveiðinni og í gegnum tíðina höfum við séð marga fallega urriða koma á land við opnun. Það er gott plan í vorveiðinni að egna fyrir urriða með litlum straumflugum. Ef þú vilt undirbúa þig ráðleggjum við þér að kíkja á bæklinginn hans Geirs Thorsteinssonar sem má finna hér.
Þetta kemur fram á síðunni hjá Veiðikortinu.