Um árangurslausa stjórnun humarveiða
,,Nú er Hafró búin að gefast upp á humrinum. Nýjasta ráðgjöfin er að veiða ekkert í 2 ár, hvað tekur svo við? Líklega áframhaldandi friðun eins og með lúðuna. Ég hef bent á að stór þorskur éti mikið af humri, að humarinn éti undan sér, hann helgar sér jú holur og vill ekki keppinauta.“ Segir Jón Kristjánsson fiskifræðingur.
,,Þekkt er frá Bretlandseyjum mikil sókn er nauðsynleg, annars minnkar stofninn og aflinn, eftir verða aðeins stórir og fáir humrar eins og hér. Til að komast nær svarinu hef ég stungið upp á því að beita mjög mismunandi sókn á aðskildar humarbleyður og sjá hvað gerist. En æ nei, í staðinn fara þeir í rándýrar hljóðmerkjarannsóknir til að kortleggja hegðun humars á botninum. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á hinum náskylda vatnahumri (Astakus).
Ég veit ekki hvort þeir hafi sótt þekkingu þangað eða til írskra og skoskra sjómanna, nokkuð sem ég hef gert. Varla, þeir vilja gera allt sjálfir og alls ekki hlusta á aðra. Ég skrifaði nýlega nokkuð ítarlega grein í Bændablaðið þar sem ég velti upp nokkrum tillögum að skýringum á ástandi stofnsins. Ég hef ekki fengið nein viðbrögð frá Hafró og átti heldur ekki von á því að fenginni reynslu.“ Segir Jón að lokum.
Þessi grein birtist í Bændablaðinu 19. desember 2019. Ekki hef ég heyrt nein viðbrögð frá Hafró, enda eru þeir ekki vanir að taka við ábendingum utan frá. Þeir gáfu svo út 214 tonna kvóta 22. janúar s.l. og bönnuðu jafnframt allar veiðar í Jökuldjúpi og Lónsdýpi „til verndar uppvaxandi smáhumri“.
Í Bændablaðinu 24 október s.l. var grein sem hét „Ráðgátan um humarstofninn“
Sagt var frá því að humarstofninn væri í dýpstu lægð frá því að veiðar á humri hófust fyrir rúmum 60 árum, en nýliðunarbrestur hefur verið sl. 9 ár. Veiðar séu að mestu bannaðar og miðist nú við s.k. könnunarveiðar til að fylgjast með ástandi stofnsins.
Þar er Jónas Páll Jónasson fiskifræðingur á Hafró, sem stýrir rannsóknum á humarstofninum, spurður að því hvers vegna sé svo illa komið fyrir humarstofninum.
„Stutta svarið er að við höfum ekki skýringu á því hvað veldur“ segir Jónas.
Ljótt er ef satt er, sérfræðingurinn sem stýrir veiðum, nýtingu og rannsóknum á humri veit ekkert hvaða þættir hafa áhrif á stofninn, sem hann er ábyrgur fyrir.
En hann fer þá leið að giska á ýmslegt sem gæti valdið því að nýliðun, endurnýjun stofnsins, hafi brugðist:
1. Makríllinn varla sökudólgurinn, segir hann, nýliðunarbresturinn hófst ekki fyrr en 2005
2. Breyttar umhverfisaðstæður líkleg skýring, en frekari rannsóknir þurfi til, athuga þurfi hvort frumframleiðslan hafi verið seinna á ferðinni með því að skoða gervihnattagögn.
Þá kunni hærra hitastig kunni að hafa áhrif á þroskunarferli eggjanna. Þá þurfi að vakta fyrstu skeiðin á þroskunarferli humarsins betur.
Það vekur athygli mína að hann minnist ekkert á þær hættur sem humarinn þarf að forðast. Annað er sjálfrán eða sjálfát þar sem stór humar étur smærri humar. Hitt er afrán, þar sem aðalóvinurinn er þorskur. Varðandi hitastig sjávar má benda á að það hefur verið stöðugt eða lítllega lækkandi frá 2003 skv. mælingadufli við Vestmannaeyjar.
Sjálfát humars
Vatnahumar (Astacus) er náskyldur leturhumri (Neprops) og þar sem hann er ræktaður verður hver og einn að vera í sérstöku búri á stærð við eldspýtustokk til að koma í veg fyrir að þeir éti hver annan. Ungarnir leita skjóls undir skildi kvendýrsins annars étur karlinn þá. En eftir um 30 daga verða þeir að flýja því annars étur mamman þá.
Vatnahumarinn er næturdýr, hann fer á kreik út úr holu sinni þegar rökkvar til að forðast að verða rándýrum að bráð. Hann er í mestri hættu að verða étinn þegar hann skiptir um skel. En hann fer út úr holunni á daginn til skelskipta því hann metur það svo að það sé öruggara að vera á ferðinni þegar aðrir humrar eru í holum sínum og taka frekar áhættuna á að vera étinn af fiskum.
Alþekkt er frá Skotlandi og Írlandi að humar étur undan sér. Tilraunir með að friða svæði í þeim tilgangi að stækka stofninn hafa reynst afar illa. Þegar svæði voru opnuð aftur eftir nokkurra ára friðun gripu menn í tómt, einungis veiddust nokkrir stórir humrar. Þar hafa menn lært að miðin þurfa stöðuga áníðslu til að hindra sjálfát en þessi mikla sókn leiðir auðvitað til þess að humarinn er almennt smærri en menn velja að sjálfsögðu marga smærri en örfáa stærri.
Hér á Íslandi er brugðist við samdrætti í humarstofninum með því að draga úr sókn, sem er rangt sé það rétt að humarinn éti undan sér. Ekki eru gerðar neinar tilraunir með mismunandi veiðiálag á mismunandi svæðum til að kanna hvort betra sé að minnka eða auka sókn. Litið er á humarstofninn sem eitt mengi þó veiðisvæðin séu dreifð.
Afrán
Alþekkt er meðal sjómanna að þorskur sem veiðist á humarslóð er að éta humar og oft er það hans aðalfæða. Þar sem stefnan hefur verið að byggja upp þorskstofninn með friðun hefur verið mikið unnið að því að hanna veiðarfæri sem skilja þorsk frá öðrum afla. Þetta á við bæði um rækju og humarveiðar.
Reynslan í Noregi eftir að farið var að setja fiskskiljur í rækjutroll var að við það minnkuðu tekjur sjómanna um þriðjung vegna þess að þá hvarf meðafli af fiski sem gaf þessar tekjur. Þegar frá leið minnkaði rækjuaflinn og þar með tekjur sjómanna. Ástæðan fyrir minnkuðum rækjuafla var að hætt var að fjarlægja átvaglið, fiskinn, sem var að djöflast í rækjunni.
Hafró hóf athuganir á afráni ýsu og þorsks 2008 en þá var farið að greina magainnihald þorsks og ýsu sem veiddist í humarleiðöngrum stofnunarinnar. Nokkuð seint í rassinn gripið að margra mati, enda sjómenn búnir að vita lengi að oft var þorskurinn fullur af humri. Auk þess höfðu rannsóknir erlendis í Írska hafi og Norðursjó sýnt að þorskur át mikið af humri. Ein rannsókn við Ísland 2001/2002 hafði sýnt að afrán þorsks á humri var töluvert.
Niðurstaða þessar rannsóknar Hafró var í stuttu máli sú að afránsvísitalan benti til þess að afrán á humri hafi verið töluvert árin 2009 til 2010 en lækkað eftir það.
Athygli vekur að ekkert er minnst á hvaða stærðir humars voru í þorskmögunum, ef menn voru að leita skýringa á slakri nýliðum humars, en etv. voru þeir ekkert að hugsa út í það.
Það hefur lengi verið stefna Hafró að byggja upp þorskstofninn með friðun. Sóknarþunga í þorsk hefur verið breytt úr 35-40% árin 1981- 93 í að vera undir 20% s.l. 10 ár. Hrygningarstofn þorsks var fram undir síðustu aldamót tæp 200 þús. tonn er nú kominn í sögulegt hámark, 650 þús tonn, sem er rúm þreföldun á 10 árum. Þá hefur hlutfallslega verið veitt minna á vertíð en áður, því útgerðarmenn vilja heldur veiða þann kvóta sem þeim er úthlutað utan vertíðar, þegar fiskverð er hærra.
Ætla má að vertíðarþorskur eftir hrygningu sé sá sem mest étur af humri og að át þorsks á humri sé í réttu hlutfalli við stærð hrygningarstofnsins.
Hrygningarstofn þorsks (rauða línan) hefur rúmlega þrefaldast á rúmum áratug en nýliðun stendur í stað. Fæðuþörf stofnsins hefur aukist að sama skapi og ekki ólíklegt að hann hafi lagst á humarinn enda eru eru hrygningarstöðvar þorsksins og uppvaxtarsvæði humarsins á svipuðum slóðum
Ein kennisetning Hafró er að stór hrygningarstofns þorska auki nýliðun. Reynslan sýnir að það er ekki rétt, nýliðun þorsks hefur verið léleg í rúm 15 ár, líklega vegna þess að þorskurinn étur undan sér. Þessi minnkaða sókn í þorskstofninn hefur ekki eingöngu verið aflatap í þorski heldur einnig í öðrum tegundum fiska rækju og humri. Engin breyting á þessari stefnu er í sjónmáli þó gögn um skaðsemi hennar hrannist upp.
Minnkuð sókn og veljandi veiðarfæri
Sókn í humar hefur minnkað mikið og er nú svo komið að eingöngu eru stundaðar s.k. könnunarveiðar.
Á áttunda áratugnum stunduðu 158 bátar veiðarnar, en settar voru strangari reglur um veiðarnar með ákveðnum hámarksafla, sem var 3000 tonn 1973 og 2000 tonn 1974 auk þess sem bátarnir voru bundnir hámarksstærð. 1976-2013 var ársaflinn 1400-2700 tonn en minnkaði svo hratt. Bátum hefur mjög fækkað, nú eru 18 skráðir með kvóta, auk þess hafa veiðarfæri verið þróuð til að minnka meðafla af fiski, velja úr stærri humarinn og vernda þann smáa.
Legggluggi með 200 mm möskvastærð hefur um langa hríð verið lögboðinn við veiðar á humri í botnvörpu og þjónar þeim tilgangi að hleypa út smáfiski. Rannsóknir 2009 leiddu í ljós að með því að nota stórriðið yfirbyrði mátti ná enn betri árangri í að hleypa út smáfiski, jafnframt því sem tilraunavarpan veiddi hlutfallslega minna af smáhumri.
Það er klassískt verklag Hafróa innan Alþjóða hafrannsóknastofnunarinnar, ICES, er að reyna að stækka stofna með friðun, og vernda ungviði, með því að velja stærstu dýrin. Það hefur vægast sagt gefist illa en þrátt fyrir mikla faglega gagnrýni er haldið sama striki.