Fíkniefnahundurinn Tindur, sem verið hefur í þjónustu lögreglunnar á Vestfjörðum síðastliðin 9 ár hefur nú lokið störfum sínum, enda kominn á ellefta ár.
Af því tilefni héldu vinnufélagar hans á lögreglustöðinni á Ísafirði Tindi hóf. Sem þakklætisvott, fyrir framúrskarandi þjónustu, fékk Tindur það sem honum finnst best af öllu, lifrapylsu.
Skv. ákvörðun lögreglustjóra, Helga Jenssonar, var umsjónarmanni Tinds og þjálfara, Þóri Guðmundssyni og fjölskyldu, afhentur hundurinn til eignar.
Nýr fíkniefnaleitarhundur tekur við starfi Tinds. Það er Buster sem Marín Elvarsdóttir, varðstjóri hjá lögreglunni á Vestfjörðum, hefur umsjón með. Buster er ungur og viljugur hundur sem hefur fengið, eins og Tindur, þjálfun hjá Steinari Gunnarssyni, yfirhundaþjálfara lögreglunnar. En hann er starfandi hjá lögreglunni á norðurlandi vestra og annast hundaþjálfun lögreglunnar í landinu.
Á einni myndinni má sjá þegar Tindur fékk viðurkenningarvottinn, lifrapylsuna. Hana afhenti Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn.