Rúmlega helmingur íslenskra karlmanna segist jákvæður gagnvart því að taka getnaðarvarnarpillu að staðaldri, ef slíkt væri í boði. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-15. febrúar 2019. Alls kváðust 27% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar vera mjög jákvæðir gagnvart því að taka getnaðarvarnarpillu, 28% frekar jákvæðir, 35% hvorki jákvæðir né neikvæðir, 5% frekar neikvæðir og 5% mjög neikvæðir.
Munur eftir lýðfræðihópum
Karlar á höfuðborgarsvæðinu (60%) reyndust líklegri en karlar af landsbyggðinni (48%) til að segjast jákvæðir gagnvart því að taka getnaðarvarnarpillu að staðaldri en karlar af landsbyggðinni reyndust líklegri til að segjast hvorki jákvæðir né neikvæðir (42%) heldur en þeir af höfuðborgarsvæðinu (31%). Jákvæðni gagnvart reglulegri notkun á getnaðarvarnarpillum fór minnkandi með auknum aldri en 63% svarenda á aldrinum 18-29 ára og 61% svarenda á aldrinum 30-49 ára sögðust reiðubúnir til að taka pillu að staðaldri, samanborið við 45% þeirra á aldrinum 50-67 ára og 46% þeirra 68 ára og eldri.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 934 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 11. til 15. febrúar 2019