Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað reglugerð um úthlutun sjónglerja og snertilinsa en með reglugerðinni er verið að stórauka þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Börn yngri en sjö ára eiga rétt á hámarks greiðsluþátttöku af kostnaði við sjóngler og börn sjö ára og eldri og fullorðnir sem glíma við ákveðna sjúkdóma í auga geta fengið 50% endurgreiðslu að hámarki. Er um að ræða tvöföldun á framlagi ríkisins til málaflokksins en reglugerð um þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði var síðast breytt árið 2005.
Þessi aðgerð er liður í að auka þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á sjónglerjum fyrir börn þannig að þau verði á endanum að fullu endurgreidd óháð aldri barnsins.
Dæmi um þær breytingar sem reglugerðin hefur í för með sér:
- Barn sem er fjögurra ára gamalt og þarf gleraugu sem eru +3.0 að styrk á bæði augu fékk áður 7.000 kr. árlega, en fær núna 20.000 kr. tvisvar á ári.
- Barn sem er níu ára og þarf gleraugu sem eru +5.0 að styrk fékk 8.000 kr. annað hvert ár, en fær núna 15.000 árlega.
- Barn sem er 13 ára og þarf gleraugu sem eru -7.0 að styrk fékk 11.000 kr. annað hvert ár en fær núna 20.000 kr. annað hvert ár.
- Einstaklingar 18 ára og eldri sem vegna sjúkdóma í auga þurfa gleraugu sem eru +5 að styrk og margskift gler fengu áður 27.000 kr. þriðja hvert ár en fá núna 50.000 hvert þriðja hvert ár.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Við erum að stórauka þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði með þessari reglugerð, sem hafði ekki verið uppfærð síðan 2005 og því löngu tímabær aðgerð. Við erum að rúmlega tvöfalda framlag ríkisins frá því sem var og ég er virkilega stoltur af þessu myndarlega skrefi sem við erum að stíga hér.”
Reglugerðin tekur gildi 1. júní. Sótt er um styrki hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu.