Varnarbarátta Úkraínu gegn grimmilegum stríðsrekstri Rússlands í 113 daga og áhrif þess á öryggisumhverfi Evró-Atlantshafssvæðisins, stuðningur bandalagsríkja við Úkraínu og efling fælingar og varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins voru meginefni á fundi varnarmálaráðherra sem lauk í Brussel í gær. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum fyrir hönd Íslands.
Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, sat hluta fundarins. Hann greindi frá alvarlegri stöðu mála þar í landi, baráttu úkraínska hersins gegn stríðsrekstri Rússlands og kallaði eftir áframhaldandi stuðningi við Úkraínu með vopnum, skotfærum og öðrum varnarbúnaði.. Varnarmálaráðherrar Finnlands, Svíþjóðar og Georgíu sátu einnig fundinn, ásamt fulltrúa Evrópusambandsins. Samhliða fundi varnarmálaráðherranna sótti utanríkisráðherra samráðsfund ríflega fjörutíu ríkja sem veita Úkraínu margþætta aðstoð undir forystu Bandaríkjanna.
,,Ákvörðun Pútíns að beita innrásarher sínum af fullum þunga til að hernema sjálfstætt og fullvalda grannríki er ólíðandi framferði. Ég lýsti á fundinum yfir aðdáun yfir baráttuþreki og hugrekki úkraínsku þjóðarinnar í varnarbaráttu sinni fyrir frelsi, fullveldi og framtíð landsins. Eining og öflugur samhljómur var um aukinn og tímanlegan stuðning bandalagsríkja og samstarfsríkja við varnir Úkraínu og á fundinum ítrekaði ég staðfestu íslenskra stjórnvalda um áframhaldandi aðstoð“ segir Þórdís Kolbrún.
Atlantshafsbandalagið hefur styrkt varnargetu sína vegna innrásar Rússlands, einkum í austurjaðri bandalagsins. Ráðherrarnir ræddu hvernig megi enn frekar efla fælingu og varnir bandalagsins til lengri tíma og styrkja fjármögnun á starfsemi þess.. Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins munu taka mikilvægar ákvarðanir um þessi mál á fundi sínum í Madríd í lok júní. ,,Sú gerbreyting sem varð á öryggisumhverfi okkar í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu 24. febrúar krefst þess að við bregðumst við með frekari aðlögun bandalagsins svo það verði í stakk búið til að tryggja áfram varnir bandalagsríkjanna. Aðild Finnlands og Svíþjóðar að bandalaginu verður mikill styrkur sem mun efla öryggi og stöðugleika í okkar heimshluta“ segir ráðherra.