Samkeppniseftirlitið stöðvar gjaldtöku Isavia ohf. á bílastæðum fyrir hópferðafyrirtæki sem aka frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið bráðabirgðaákvörðun þar sem Isavia ohf. er gert að stöðva tímabundið gjaldtöku á ytri rútustæðum (fjarstæðum) við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Gjaldtakan tók gildi þann 1. mars 2018, í framhaldi af útboði og samningum um nýtingu tveggja hópferðafyrirtækja á stæðum við flugstöðvarbygginguna (nærstæði).
Samkeppniseftirlitinu er heimilt að taka bráðabirgðaákvörðun, sbr. 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, ef sennilegt þykir að sú háttsemi sem er til athugunar gangi gegn ákvæðum samkeppnislaga og ef líklegt þykir að bið eftir endanlegri ákvörðun leiði til röskunar á samkeppni eða að málið þoli að öðru leyti ekki bið. Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að skilyrði til bráðabirgðaákvörðunar sé fyrir hendi. Þannig telur eftirlitið sennilegt að Isavia hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með óhóflegri verðlagningu við gjaldtöku fyrir notkun á fjarstæðum.
Jafnframt mismuni Isavia viðskiptavinum í verðlagningu og skilmálum. Þá telur Samkeppniseftirlitið að bið eftir endanlegri ákvörðun getið skaðað samkeppni. Verði ekkert að gert muni gjaldtaka Isavia á fjarstæðum hafa veruleg skaðleg áhrif á rekstur fyrirtækja sem nýta þurfi fjarstæðin. Þá liggur fyrir að gjöld vegna stæðanna munu að óbreyttu hækka verulega þann 1. september nk., en þá verður svokallaður afsláttur á aðlögunartímabili felldur niður.
Samkeppniseftirlitið telur því að skilyrði fyrir töku bráðabirgðaákvörðunar séu fyrir hendi. Í henni felst að umrædd gjaldtaka er stöðvuð tímabundið. Gildir bráðabirgðaákvörðunin til 31. desember 2018. Samhliða hefur Samkeppniseftirlitið sent Isavia andmælaskjal þar sem nánar er gerð grein fyrir frumniðurstöðum eftirlitsins vegna rannsóknarinnar og félaginu gefinn kostur á að koma sjónarmiðum og andmælum á framfæri áður en endanleg ákvörðun verður tekin í málinu. Bráðabirgðaákvörðunin var birt Isavia með bréfi dags. í dag., en bréfið er aðgengilegt hér.