Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. júlí, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 3. júlí. Kl. 2 var bifreið ekið á hjólreiðamann á Streng við Kistuhyl í Ártúnsholti, en slysið var tilkynnt til lögreglu daginn eftir. Ökumaður bifreiðarinnar fór af vettvangi án þess að huga að hjólreiðmanninum, en sá síðarnefndi fór sjálfur til síns heima og þaðan með sjúkrabíl á slysadeild. Og kl. 14.07 missti ökumaður á leið austur Vesturlandsveg, á móts við Skógrækt Mosfellsbæjar í Úlfarsfelli, stjórn á bifreið sinni og hafnaði utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild, en talið er að hann hafi fengið sykurfall og misst meðvitund í aðdraganda slyssins.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 4. júlí. Kl. 8.21 var fjórhjóli ekið út af akbraut á mótum Skeiðarvogs og Faxafens og hafnaði það á umferðarskilti. Samkvæmt vitnum var fjórhjólinu ekið hratt og ógætilega svo það lyfti framhjólum og missti ökumaður stjórn á hjólinu í aðdraganda slyssins og hafnaði það utanvegar á umferðarskilti. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.07 varð umferðarslys á hjólreiðastíg sunnan við Kirkjugarða Reykjavíkur í Fossvogi (Suðurhlíð) þar sem tveir hjólreiðamenn hjóluðu á mót hvor öðrum og skullu saman. Þeir voru báðir með öryggishjálm, en annar hjólreiðamannanna var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 5. júlí kl. 15.51 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut, en ökumaður hennar stöðvað í frárein frá Kringlumýrarbraut í norður fyrir umferð austur Listabraut þar sem sprungið hafði á einum hjólbarða bifreiðarinnar. Aðvífandi bifreið var þá ekið aftan á þá kyrrstæðu og síðan rakleiðis af vettvangi. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á náði ljósmynd af tjónvaldinum og fannst hann síðar, en sá er grunaður um ölvunarakstur. Fyrrnefndi ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 8. júlí kl. 17.56 valt bifreið út fyrir veg á Hafravatnsvegi við Sólvelli. Að sögn vitns var bifreiðinni ekið hratt norður Hafravatnsveg og rásaði hún á veginum í aðdraganda slyssins. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild og síðan í fangageymslu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 9. júlí. Kl. 4.10 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á Barónsstíg við Laugaveg. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild, en hann er grunaður um að hafa ekið ógætilega og verið undir áhrifum áfengis. Kl. 13.03 var bifreið ekið á ljósastaur í Suðurfelli, á móts við Asparfell/Æsufell. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild, en hann er grunaður um ölvunarakstur. Og kl. 19.10 var torfæruhjóli ekið á vespu á bensínstöð í Skógarseli. Ökumaður torfæruhjólsins var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.