ESB hefur samþykkt að ríkistjórn Þýskalands og fylkið Hessen fái heimild til að lána flugfélaginu Condor 380 milljónir Evra (52 milljarða ISK) til þess að lifa af veturinn, endurskipuleggja reksturinn og finna nýjan samstarfsaðila.
Það er mat þýsku ríkisstjórnarinnar og margra annara að tjónið sem hlytist af gjaldþroti þess sé af þeirri stærðargráðu að margt megi leggja í sölurnar til þess að koma í veg fyrir að félagið sogist niður með móðurfyrirtækinu Thomas Cook. Condor flytur u.þ.b. 7 milljónir farþega á ári til u.þ.b. 80 áfangastaða. Félagið á sér langa og farsæla sögu í Þýskalandi allt frá árinu 1955 þegar Lufthansa og Deutsche Bundesbahn og tvö skipafélög stofnuðu Deutsche Flugdienst GmbH.
Lánið er veitt eftir sérstaka heimild frá samkeppnisyfirvöldum Evrópusambandsins og háð ströngum skilyrðum, s.s. að ekkert fé renni frá Condor til breska móðurfyrirtækisins (Thomas-Cook), lánið verði greitt út í áföngum, sýnt verði fram á lausafjárþörf vikulega.
Lánið verði endurgreitt að sex mánuðum liðnum eða félagið verði endurskipulagt frá grunni til að verða rekstrarfært. Lánið er ennfremur veitt á þeim forsendum að það raski ekki samkeppnisstöðu á þeim markaðsvæðum sem félagið starfar á og að það þjóni einkum hagsmunum farþega félagsins. Sjá nánar hér: Spiegel