,,Þessi fyrirhugaða „risaeðlulest“ á víst að kosta um kr. 40.000.000.000 – í fyrsta áfanga“
Hafa lesendur tekið eftir þessum stóru málkössum á fjórum hjólum er dingla hér um götur borgarinnar ýmist hálftómir eða tómir? Þessi fyrirbæri nefnast „strætó“ í daglegu tali og eru einskonar risaeðlur dagsins. Sá er þetta ritar sat eitt sinn á horninu fyrir utan Kaffi Reykjavík í miðbænum. Það var heitt úti og kalt hvítvín nýrunnið í glasið. Hljóðlátt var þarna á horninu þegar allt í einu ryðst gul risaeðla framhjá galtóm. Á þriðja glasi gafst greinarhöfundur upp á að telja tóma vagnana.
Svo var haldið heim á leið og krækt í leigubíl í Lækjargötu. En þar var af nógu að taka. Bílsjórarnir sátu dottandi í langri röðinni og biðu eftir að viðskiptavinir vermdu aftursætin. Og þá kviknaði hugmynd: Hvernig stendur á því að þessir atvinnubílar eru ekki nýttir betur af okkur hér í borginni? Væri ekki upplagt að leggja risaeðlunum og fá atvinnubílstjórunum það hlutverk að aka strætisvagnaleiðirnar á sínum lipru fararskjótum.
Þannig yrðu ferðirnar miklu tíðari. Það mætti gera kröfu um að bílarnir tækju svona 6-8 farþega hver og hefðu pláss fyrir hjólastóla og barnavagna. Nú þegar eru greitt ógrynni skattpeninga með risaeðlunum og það mætti alveg eins umbuna þessum kvika nýja almenningsfaratækjamáta.
Og nú gleymdist að minna á þá einkennilegu fyrirætlan að útbúa einskonar „lestarkerfi“ þar sem hinar risaeðlurnar elta hver aðra í halarófu. Þessi fyrirhugaða „risaeðlulest“ á víst að kosta um kr. 40.000.000.000 – í fyrsta áfanga! Það væri sennilega hægt að lækka fargjöldin í strætóleigubílunum jafnvel hafa fríar ferðir með því að setja risaeðlurnar í endurvinnslu og stöðva þá fyrirætlan að troða risaeðlujárnbrautunum niður í miðjar aðalumferðaræðar borgarinnar.