52 ára íslenskur karlmaður búsettur í Noregi hefur verið ákærður fyrir rangar sakargiftir, en í tilkynningum til Neyðarlínunnar og barnaverndar sagði hann bróður sinn búsettan á höfuðborgarsvæðinu hafa beitt tvær dætur sínar kynferðislegu ofbeldi. Bróðir mannsins og frænkur hans tvær krefjast þess að hann verði dæmdur til að greiða þeim samtals fimm milljónir, þá krefst saksóknari fangelsisdóms yfir manninum.
RÚV greinir frá en málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á næstunni.
Héraðssaksóknari gaf ákæru á manninum út í sumar, en manninum er gefið að sök að hafa í febrúar fyrir þremur árum komið röngum tilkynningum til Neyðarlínunnar og barnaverndar í stóru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu, Í tilkynningunum hafi maðurinn leitast við að koma því til leiðar að bróðir hans yrði sakaður um refsiverðan verknað, en maðurinn sagði bróður sinn hafa beitt tvær dætur sínar kynferðislegu ofbeldi.
Bróðirinn var handtekinn, tekin var af honum skýrsla með réttarstöðu sakbornings og barnavernd tók könnunarviðtöl við dætur hans. Rannsókn málsins var hætt eftir að upp komst að ekkert var hæft í ásökunum mannsins.
Sigldi undir fölsku flaggi
Í ákæru er greint frá því að maðurinn, sem er ákærður í málinu, hafi hringt í Neyðarlínuna og gefið upp falskt nafn.
Þá eru gerðar alls fimm einkaréttakröfur á hendur manninum sem hljóða samtals upp á átta milljónir kr.