Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi.
Áfram hættustig á Seyðisfirði og óvissustig á Austurlandi vegna skriðuhættu.
Hættustig almannavarna er áfram í gildi á Seyðisfirði vegna skriðuhættu. Staðan er metin óbreytt frá því í dag og rýming í gildi. Einnig er óvissustig í gildi á Austurlandi af sömu ástæðu.
Veðurstofa Íslands hefur gefur gefið út appelsínugula úrkomuviðvörun sem gildir til klukkan níu í dag. Spáð er áframhaldandi mikilli rigningu sem valda mun auknum grunnvatnsþrýstingi og viðhalda hárri grunnvatnsstöðu. Áfram er því hætta á vatnsflóðum og skriðuföllum. Mikið álag er á fráveitukerfi og miklar líkur á vatnstjóni. Klukkan níu tekur svo við gul úrkomuviðvörun hjá Veðurstofunni fyrir sama svæði. Þá er spáð áframhaldandi talsverðri
rigningu með sömu áhrifum og tilheyrandi hættu.
Teknar voru myndir af skriðusvæðinu með dróna í dag, sem verða innlegg í mat á aðstæðum. Fráveitukerfi í bænum og götur voru hreinsaðar af aur sem gekk inn í bæinn í gær þegar skriðurnar féllu.
Íbúar á Eskifirði, á ákveðnum svæðum nærri Lambeyrará og Grjótá, hafa verið beðnir um að fara að öllu með gát og fylgjast með aðstæðum
Áfram verður fylgst með aðstæðum í kvöld og nótt og gripið til frekari öryggisráðstafana ef tilefni þykir til. Myndir af vettvangi á Seyðisfirði voru teknar m.a. af lögreglunni.