Jónína Benediktsdóttir, athafnakona og íþróttafræðingur er látin. Jónína sem fæddist 26. mars 1957 varð bráðkvödd á heimili sínu í Hveragerði.
Jónína nam íþróttafræði í Kanada og þegar heim var komið stofnaði hún eina fyrstu líkamsræktarstöðina á Íslandi. Jónína var auk þess búsett í Svíþjóð til margra ára. Þar rak hún líkamsræktarstöðvar og hlaut þar fjölmargar viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarfsemi sína í líkamsrækt.
Þá rak hún um nokkurra ára skeið líkamsræktarstöðina Planet Pulse. Jónína var áhugasöm að kynna landsmönnum mikilvægi líkamsræktar og stóð meðal annars fyrir morgunleikfimi á Rás 1. Síðustu ár hefur hún staðið fyrir lífsbætandi heilsumeðferðum í Póllandi og nú síðast á Hótel Örk í Hveragerði. Jónína var þekkt fyrir brautryðjendastarf á sviði heilsuræktar og flutti fyrirlestra um heilsutengd málefni víða um heim.
„Ég er fyrst og fremst kennari og það er það sem hefur alltaf verið ástríða hjá mér. Ég kenndi stundum eróbikk sjö tíma á dag og finnst stundum að ég sé enn að blæða fyrir það og mæli nú ekki með svo mikilli hreyfingu … og svo borðuðum við Ágústa (Johnson) lakkrískonfekt á kvöldin, af því að okkur fannst það svo gott og fólk var ekkert byrjað að pæla í næringu af neinu viti á þessum tíma,“ sagði Jónína meðal annars í viðtali í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggva nýverið.
Jónína lætur eftir sig þrjú uppkomin börn, Jóhönnu Klöru, Tómas Helga og Matthías sem eru öll börn Stefáns Einars Matthíassonar. Barnabörnin eru fjögur, Stefán Kári, Kristín Embla, Ásdís Þóra og Matthías Þór.