Í síðustu viku slösuðust tuttugu og fjórir vegfarendur í fimmtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. febrúar.
Sunnudaginn 10. febrúar kl. 1.32 var bifreið ekið um hringtorg við Álfahlíð og á rafmagnstengikassa. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 11. febrúar. Kl. 10.32 varð fimm bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut til austurs, skammt vestan gatnamóta Kringlumýrarbrautar. Tveir ökumannanna leituðu sér læknisaðstoðar í framhaldinu af óhappinu. Og kl. 21.50 var bifreið ekið af Flatahrauni, beygt norður Reykjavíkurveg, öfugt miðað við akstursstefnu, á tvö umferðarskilti á umferðareyjum, hvert á fætur öðru, utan í ljósastaur og utan í steinvegg norðan Hjallabrautar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 12. febrúar kl. 8.45 fauk vöruflutningabifreið á leið vestur Suðurlandsveg út af veginum gegnt Jósepsdal. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 13. febrúar. Kl. 15.58 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Sæbraut og beygt norður Klettagarða, og bifreið, sem var ekið vestur Sæbraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 18.31 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið austur Breiðholtsbraut og beygt til norðurs að Stöng. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.40 var bifreið ekið á ljósastaur við Strandgötu, neðan við Suðurbæjarlaug, Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 14. febrúar. Kl. 9.02 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á afrein Reykjanesbrautar til norðurs að Vesturlandsvegi til vesturs. Þrír ökumannanna ætluðu að leita sér aðhlynningar á slysadeild í framhaldinu. Kl. 9.49 var bifreið ekið austur Bíldshöfða og aftan á kyrrstæða bifreið vestan Vagnhöfða. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 12.29 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Kalkofnsveg, og bifreið, sem var ekið vestur Sæbraut og beygt til suðurs gegnt Faxagötu/Kalkofnsvegi að Skúlagöu. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.16 var bifreið ekið í afrein Reykjanesbrautar til norðurs að Vesturlandsvegi til austurs og þar á ljósastaur. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 15. febrúar. Kl. 8.04 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Kleppsmýrarveg, og bifreið, sem var ekið suður Sæbraut. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 15.05 var bifreið ekið aftan á aðra á Strandgötu gegnt Dröfn eftir að fremri bifreiðin hafði verið stöðvuð til að hleypa gangandi vegfaranda yfir á gangbraut. Ökumaður hennar leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Og kl. 21.49 var bifreið ekið suður Vesturlandsveg, út fyrir veg í Kollafirði og velt. Ökumaðurinn, sem grunaður er um lyfjaakstur, var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 16. febrúar kl. 2.49 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Reykjanesbraut, og bifreið, sem var ekið norður Reykjanesbraut og beygt vestur Bústaðaveg. Báðir ökumennirnir og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.