Aðeins eitt lögheimili barns brot á mannréttindum barns og foreldra þess


Stjórnvöld brjóta á 8. og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 2. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins með því að þvinga foreldra til að skrá lögheimili barns aðeins á heimili annars foreldris þeirra þegar foreldrar búa ekki saman.
Í frumvarpi til laga um lögheimili og aðsetur kemur fram að sérstaklega hafi verið skoðað hvort börn sem búa til jafns hjá foreldrum sem hafa sameiginlega forsjá og eru ekki í sambúð eða hjúskap geti átt tvöfalt lögheimili.
Við mat á því hafi verið horft til skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum sem lögð var fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015-2016 og skýrslu sama hóps frá mars 2017. Niðurstaða þessarar skoðunar hafi verið að erfitt gæti verið fyrir sveitarfélög að uppfylla skyldur sínar í þessu samhengi og því hafi ekki talið rétt að heimila skráningu tvöfalds lögheimilis. Þá er tekið fram að komi tillögur í fyrrgreindri skýrslu frá mars 2017 til framkvæmda muni Þjóðskrá Íslands væntanlega skrá sérstaklega að búseta barna sé skipt eða tvöföld, þ.e. skipt búseta en barnið hafi aðeins eitt lögheimili.
Stjórn Félags um foreldrajafnrétti hefur rýnt í rök þau sem notuð eru gegn tvöfaldri lögheimilisskráningu barna í fyrr nefndum skýrslum. Niðurstaða þeirrar skoðunar er að rökstuðningur starfshóps innanríkisráðherra fyrir aðeins einu lögheimili sé afar veikur. Hagsmunir barna og foreldra séu látnir víkja fyrir smávægilegum tæknilegum erfiðleikum. Þá er það Ijóst út frá skýrslu starfshópsins að tæknilegir örðugleikar tengdir því að útbúa tvöfalda búsetu barns á tveimur heimilum miðað við núverandi kerfi um eitt lögheimili barns eru síður en svo minni en það sem fylgir tvöfaldri lögheimilisskráningu barns. Verkefni sem fylgja tvöfaldri lögheimilisskráningu barns verða hæglega leyst ef viljinn er fyrir hendi og því ekkert annað en viljinn því til fyrirstöðu að hagsmunir barns verði látnir ráða för.
Umsögn Félags um foreldrajafnrétti um frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur má finna á vef Alþingis.
Tengt efni:
Barnabætur, lögheimili og skattafslættir, skiptast nú jafnt eftir skilnað
Tálmunarofbeldi mæðra