Khaled Cairo var um hádegið í dag dæmdur í 16 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að myrða Sanitu Braune á heimili hennar við Hagamel 21. september síðastliðinn
Honum er jafnframt gert að greiða foreldrum Braune 600 þúsund krónur í bætur hvoru og þremur börnum hennar þrjár milljónir hverju.
Khaled Cairo var viðstaddur dóminn er hann var kveðinn upp og mótmælti hástöfum á ensku eftir að Símon Sigvaldason héraðsdómari hafði keðið upp 16 ára dóm yfir honum. Hann sagði að hann hefði ekki drepið Braune og að hún hefði dáið á spítala en ekki á staðnum. En Sanita var úrskurðuð látin við komuna á bráðamóttöku.
Fyrir dómi sagðist Khaled Cairo hafa orðið reiður þegar hann komst að því að Sanita væri að hitta annan mann. Hann sagðist lítið muna eftir atburðum kvöldsins.
Khaled Cairo er hælisleitandi frá Jemen og var dæmdur fyrir að hafa ráðist á Sanitu og slegið hana með glerflöskum í höfuð og andlit, þrengt að hálsi hennar og barið hana ítrekað í höfuðið með 10 kílóa slökkvitæki, með þeim afleiðingum að hún lést.
Meðleigjandi Sanitu kallaði til lögreglu og á upptökum frá Neyðarlínunni má heyra Sanitu hrópa á hjálp. Þegar lögregla kom á vettvang stóð Khaled Cairo yfir Sanitu þar sem hún lá í blóði sínu á ganginum, og var hann þá með slökkvitækið í höndum. Lögregla þurfti að beita piparúða til að yfirbuga hann. Khaled Cairo var blóðugur frá toppi til táar og einungis klæddur í nærbuxur.
Í dómnum segir m.a. Árás Khaled Cairo á Sanitu Braune var hrottafengin. Blóðferlar í íbúðinni og áverkar á henni leiða það í ljós. Ítrekuð högg í andlitið með glerflösku í herberginu voru með þeim hætti að ákærða gat ekki dulist að slík högg myndu geta leitt til dauða. Var það upphafið að hinni ofsafengnu atburðarás sem síðar leiddi til dauða Sanitu Braune.
Verður við það miðað að það hafi orðið ásetningur Khaled Cairo að bana Sanitu Braune er hann sló hana ítrekað með glerflöskum í andlitið í svefnherberginu. Upptökur af samtali tilkynnanda við lögreglu leiða í ljós langdregna atburðarás þar sem Sanitu Braune hrópar sífellt á hjálp á milli þess sem hún biður ákærða að þyrma sér.
Miðað við upphaf árásarinnar og hvernig hún endar, með hliðsjón af þessum hljóðupptökum, var það einbeittur ásetningur Khaled Cairo að bana Sanitu Braune. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir manndráp og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Khaled Cairo er fæddur í febrúar 1979. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Khaled Cairo er sakhæfur og á sér engar málsbætur. Með hliðsjón af hinni hrottafengnu og langvinnu árás sæti Khaled Cairo fangelsi í 16 ár. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald hans frá 22. september 2017.
Trylltist-og-lamdi-konuna-med-glerfloskum-og-9-7-kg-slokkvitaeki-Mordid-hagamel/
Umræða