Frá árinu 2008 hafa bílaframleiðendur um allan heim þurft að innkalla bíla vegna gallaðra loftpúða. Þetta er stærsta innköllun á bílum sem nokkurn tímann hefur verið gerð og tekur til tugmilljóna bíla – líka á Íslandi. Þetta kom fram í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks á ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Það þarf að skipta um 50 milljón Takata-loftpúða í 35 milljón bílum. Búið er að skipta um stóran hluta þeirra, en ekki alla.
Gallinn sem þarf að laga í bílunum er heldur ekkert smáatriði. Loftpúðar sem framleiddir voru af japanska fyrirtækinu Takata eiga það nefnilega til að springa. Bókstaflega. 29 hafa látið lífið í slíkri sprengingu, víðs vegar um heiminn síðasta áratuginn, nú síðast í sumar.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, var einn viðmælenda sem kom fram í þættinum. „Það hafa orðið banaslys og mjög alvarleg slys víða um veröldina. Þetta varðar 19 framleiðendur sem notuðu þennan búnað á frekar löngu tímabili,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. „Þetta er mjög stór innköllun, sú stærsta í bílasögunni, og mikið öryggismál.“
Fram kom í þættinum að Toyota, sem selur flesta bíla á Íslandi á hverju ári, er einn þeirra framleiðanda sem notaði þessa gölluðu Takata-púða. „Þetta er búið að vera töluvert verkefni fyrir okkur undanfarin ár. Og það eru nokkuð margir bílar sem eru kallaðir inn út af loftpúðunum. Hjá okkur, hjá Toyota, eru þetta um 19.500 bílar og það er náttúrulega unnið í þessu daglega,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota.
Umfjöllunina í heild sinni í Kveik má nálgast hér