Þróunarsjóður innflytjendamála styrkir alls 27 verkefni og er sérstök áhersla lögð á verkefni tengd börnum og ungmennum, atvinnu og virkniúrræðum ásamt rannsóknar- og þróunarverkefnum sem tengjast áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins á innflytjendur á Íslandi.
Framlög til þróunarsjóðs innflytjendamála voru hækkuð verulega á þessu ári, en framlög úr sjóðnum voru aukin úr 10 milljónum króna í 25 milljónir króna árin 2018, 2019 og 2020 og í ár var samþykkt að leggja 20 milljóna króna viðbótarfjármagn til verkefna fyrir ungmenni af erlendum uppruna á aldrinum 16-19 ára sem eru hvorki í námi né vinnu. Um er að ræða hluta af framhaldsaðgerðum til að skapa viðspyrnu við áhrifum heimsfaraldurs kórónaveirunnar.
Alls voru veittir 20 styrkir vegna verkefna og rannsókna sem falla að áherslum sjóðsins í ár fyrir samtals rúmar 24 milljónir króna og skiptast svona:
Börn og ungmenni: sjö verkefni styrkt fyrir samtals 8.200.000 kr.
Covid-19: tvær rannsóknir og eitt verkefni styrkt fyrir samtals 4.000.000 kr.
Vinnumarkaður og virkniúrræði: tvær rannsóknir og sex verkefni styrkt fyrir samtals 9.870.000 kr.
Önnur rannsóknar- og þróunarverkefni: tvö verkefni styrkt fyrir samtals 2.000.000 kr.
Þá voru veittir sjö styrkir fyrir samtals 16,5 milljónir króna vegna rannsókna og verkefna sem snúa sérstaklega að ungmennum af erlendum uppruna sem eru á aldrinum 16-19 ára og eru hvorki í námi né vinnu. Tæpar 2,7 milljónir króna verða nýttar til þess að bæta tölfræðiupplýsingar um ungmenni af erlendum uppruna sem eru á aldrinum 16-19 ára og eru hvorki í námi né vinnu. Mikilvægt er að afla upplýsinga um hvaða áhrif efnahagsþrengingar vegna Covid-19 hafa haft á ungmenni á aldrinum 16-19 ára svo hægt sé að bregðast við með markvissum aðgerðum.
Háskólasetur Vestfjarða annast umsýslu með úthlutun styrkja og eftirfylgni samkvæmt samningi við félagsmálaráðuneytið.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er gaman að sjá kraftinn í þessum ólíku verkefnum sem hljóta styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála. Í ár er sérstök áhersla á verkefni tengd börnum og ungmennum af erlendum uppruna, en Covid-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif á þennan hóp. Ég óska öllum þeim sem hlutu styrk góðs gengis með verkefnin og ég hlakka til að sjá þau verða að veruleika.“