Erlent flutningaskip strandaði við Ennishöfða í Húnaflóa fyrr í dag. Skipið var á leið frá Hvammstanga til Hólmavíkur þegar það strandaði. Skipstjóri flutningaskipsins tilkynnti Landhelgisgæslunni um strandið á þriðja tímanum en þá var varðskipið Freyja, sem statt var í Skagafirði, þegar í stað kallað út sem og áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Þá var björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Skagaströnd sömuleiðis beðið um að halda á vettvang.
Samkvæmt skipstjóra flutningaskipsins er líðan áhafnarinnar góð. Aðstæður á strandstað eru góðar og veður með besta móti. Gert er ráð fyrir að varðskipið Freyja verði komið á strandstað um kvöldmatarleitið en þá verða næstu skref metin. Von er á þyrlu Landhelgisgæslunnar á staðinn eftir rúma klukkustund. Landhelgisgæslan hefur gert Umhverfisstofnun viðvart um strandið.
Flutningaskipið er um 4000 brúttótonn og um 113 metra langt.
Umræða