Lögreglan á Vestfjörðum stöðvaði í síðustu viku tvo ökumenn grunaða um ölvun við akstur. Var annar í Tálknafirði en hinn á Ísafirði.
Fjórir ökumenn voru einnig kærðir fyrir of hraðan akstur, allir í námunda við Hólmavík. Var sá sem hraðast ók mældur á 125 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km á klst. Slíkt brot hefur í för með sér sekt upp á 120.000 krónur og 2 punkta í ökuferilskrá.
Í tvígang barst tilkynning um eld í sinu í umdæminu en í báðum tilfellum tókst að slökkva hann áður en illa fór. Vert er að taka fram að sinubrenna er óheimil almennt með ákveðnum þröngum undantekningum sem m.a. tilskilja leyfi sýslumanns til þeirra verka. Ekki þarf að tíunda það frekar hversu illa eldur á við á víðavangi, sér í lagi á þessum árstíma þegar farið er að grilla í vorið.
En þó vor sé lofti á Vestfjörðum, eins og meðfylgjandi mynd frá því á sjötta tímanum í morgun ber með sér, og hinn eiginlegi tími nagladekkja liðinn undir lok þurfa ökumenn á svæðinu ekki að búast við sektum vegna notkunar þeirra alveg á næstunni að minnsta kosti enda ekki gefið að vetur konungur sé alfarinn eins og flestir þekkja af fenginni reynslu.
Umræða