Færst í aukana að eigendur skilji bílana sína eftir víðsvegar á bílastæðum í borginni og þeim svo hent
Í vaxandi mæli hefur Vaka verið að fjarlægja bíla af bílastæðum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið sem síðan er komið fyrir í ákveðið geymsluport fyrirtækisins. Ástæða þessa er að bílar eru skildir eftir hér og þar á númerum um lengri eða skemmri tíma. Nokkur dæmi eru um það að bílar séu líka án númeraplatna þegar þeir eru fluttir af brott.
Að sögn Daníels Más Einarssonar, framkvæmdastjóra Vöku, er í langflestum tilfellum um að ræða frekar verðlitla bíla sem fluttir eru á brott. Stór hluti þessara bíla er rusl og segir Daníel Már fyrirtækið henda mikið af bílum. Vaka er einn stærsti aðili í förgunarflutningum hér á landi.
Eftir að bílarnir hafa verið fluttir í geymsluportið er haft samband við eigendur en ef sú eftirfylgni gengur ekki eftir fara bílarnir á uppboð eða í hreina förgun.
Geymsluport Vöku tekur ekki endalaust við eins og gefur að skilja. Ekki hefur tekist að hafa upp á fimmta tug eigenda bíla sem þa hefur verið komið fyrir.
,,Því er ekki að leyna að það hefur færst aðeins í aukana að eigendur skilji bílana sína eftir og láti henda þeim. Það er góðæri í gangi og kannski hefur það eitthvað að segja í þessum efnum. Það er eins og fólk vilji ekki eyða miklum fjármunum í viðgerðir og henda bílunum í staðinn. Við erum alltaf að vingsa úr og það fer mikið frá okkur þegar uppboðin eru afstaðin. Það eru nokkrir menn frá okkur að vinna í þessu alla daga, ná í eigendur svo þeir geti nálgast bíla sína,“ segir Daníel Már Einarsson framkvæmdastjóri Vöku.