Samþykkt einróma að stofna opinbert hlutafélag um nýjan Herjólf
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í vikunni að Vestmannaeyjabær stofni opinbert hlutafélag, þ.e. Herjólf ohf., í því skyni að félagið taki að fullu að sér ábyrgð og rekstur á nýrri farþegaferju (Herjólfur) sem mun alfarið taka að sér farþegaflutninga milli lands og Eyja þegar hún kemur til landsins á haustmánuðum 2018, skv. frétt Eyjafrétta.
Samþykkt stofnunar félagsins er í samræmi við þegar samþykktan samning Vestmanneyjabæjar og ríkisins um yfirtöku bæjarins á farþega- og vöruflutningum á sjóleiðinni milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar/Þorlákshafnar.
Enn fremur samþykkir bæjarstjórn að leggja félaginu til kr. 150.000.000 sem stofnfé í samræmi við fyrirliggjandi drög að stofngögnum, sem liggja frammi á fundinum, segir í bókun. Tilgreint hlutafé er hluti af því rekstrarmódeli sem lagt hefur verið til grundvallar samningsins og gerir það ráð fyrir að við lok samningsins verði eigið fé félagsins rúmlega 175.000.000 og stofnfé skili sér til því til baka komi til slita þess við samningslok.
Stjórn félagsins
Með samþykkt tillögu þessarar er bæjarstjóra enn fremur veitt umboð til að ganga frá stofnun félagsins í samræmi við samþykkt þessa, auk fyrirliggjandi draga að stofngögnum, segir í bókun. Þá samþykkir bæjarstjórn enn fremur tilnefningar um að aðalmenn í stjórn félagsins við stofnun þess verði Arndís Bára Ingimarsdóttir, Grímur Gíslason, Kristín Jóhannsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Páll Guðmundsson. Í varastjórn taki sæti Birna Vídó Þórsdóttir og Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir.
Umræða