Farþegaferjan Baldur liggur vélarvana rétt utan við hafnarmynnið á Stykkishólmi um 300 metrum frá landi. Um borð eru 102 farþegar. Rúv greindi fyrst frá og ræddi við Einar Strand hjá björgunarsveitinni Berserkjum á Stykkishólmi sem er formaður svæðisstjórnar. Hann segir að búið sé að kalla úr allar björgunarsveitir á Snæfellsnesi og að þyrla landhelgisgæslunnar sé væntanleg.
Einar segir í viðtalinu að Baldur sé heppilega staðsettur, það hefði skapað mun meiri hættu ef hann hefði orðið vélarvana aðeins nær landi. Framkvæmdastjóri Sæferða, Gunnlaugur Grettisson segir skipið hafa orðið vélarvana rétt eftir að það lagði af stað frá Stykkishólmi „Baldur var að fara í reglulega áætlun í morgun klukkan níu, nokkrum mínútum seinna þá kemur upp bilun í gír. Skipið er rétt komið útfyrir höfnina í Stykkishólmi þegar kemur upp bilun í gír sem að gerir það að verkum að skipið stöðvast. Skipstjóri brást við með því að kasta út akkeri, hringja í gæsluna og í þá viðbragðsaðila sem við þurfum og eigum að gera.“
Umræða