Helstu verkefni næturvaktarinnar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu;
Laust fyrir kvöldmat barst tilkynning um eld frá brunaviðvörunkerfi í verslunarhúsnæði í Kópavogi. Lögregla og slökkvilið fóru rakleitt að vettvangi, en reyndist vera um falsboð að ræða.
Stuttu síðar lagði lögregla hald á reiðhjól í austurbænum. Grunur leikur á að reiðhjólin hafi verið tekin ófrjálsri hendi. Málið er nú í rannsókn og unnið að því að koma þeim aftur í hendur eigenda sinna.
Rétt fyrir klukkan átta leysti lögregla upp hóp ungmenna sem var til óþurftar við veitingastað í austurborginni, en ungmennin höfðu verið að angra starfsmenn og öryggisverði.
Um níuleytið var tilkynnt um heimilisofbeldismál í vesturborginni. Lögregla fór að vettvangi ásamt barnavernd og er málið í rannsókn.
Um hálf tíu var tilkynnt um konu í andlegum öngstrætum í vesturbænum. Lögregla fór að vettvangi og kom henni til aðstoðar. Lögregla hafði milligöngu um að konan fengi læknisaðstoð.
Stuttu síðar barst tilkynning um menn sem flugust á framan við krá í austurborginni. Mennirnir voru farnir þegar lögreglu bar að garði og frekari aðstoð afþökkuð.
Undir lok skemmtanahalds í miðborginni þurfti lögregla að bregðast við fjórum mismunandi líkamsárásarmálum. Er enginn alvarlega slasaður eftir þessar árásir og málin öll í rannsókn.
Um miðnætt var tilkynntu um mann sem mögulega var að selja þýfi í austurbænum. Maðurinn fannst ekki þrátt fyrir leit lögreglu.
Eftir að skemmtanahaldi lauk þurfti lögregla að bregðast við kvörtunum vegna gleðskaparhávaða víðsvegar um borgina það sem eftir lifði nætur.
Auk þessa sinnti lögregla fjölda umferðamála um allt höfuðborgarsvæðið. Þar á meðal var einn ökumaður stöðvaður fyrir akstur undir áhrifum áfengis, annar fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Báðir ökumenn voru leystir úr haldi lögreglu að sýnatöku lokinni og er mál þeirra í rannsókn.
Einnig var ökumaður stöðvaður við ofsaakstur í miðborginni. Mældist hraði bifreiðar hans 165 km/klst. þar sem leyfilegur hámarkshraði er 60km/klst. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabyrgða og hann látinn laus að skýrslutöku lokinni.