Talsverður erill var hjá lögreglunni s.l. sólarhring og getið er um helstu atriði í dagbók, þar sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af borgurunum með einum eða öðrum hætti.
- Í austurbænum var maður kærður fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Lagt var hald á nokkuð magn kannabisefna og nokkur grömm af ætluðu kókaíni.
- Í austurbænum féll maður af rafmagnshlaupahjóli og slasaðist. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysa- og bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss.
- Í austurbænum var ökumaður handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var einnig kærður fyrir að aka sviptur ökuréttindum og fyrir að reyna að villa á sér heimildir. Ökumanninum var sleppt eftir sýnatöku.
- Kvartað var yfir broti á reglugerð um hávaða í Hafnarfirði. Þar var verið að meitla berg eftir leyfileg tímamörk, en meitlun á bergi telst vera sérstaklega hávaðasöm framkvæmd sem má eingöngu fara fram á virkum dögum milli 07:00 og 19:00. Brýnt var fyrir framkvæmdaraðilum að virða reglugerðina.
- Í Kópavogi var ökumaður handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Ökumaðurinn var einnig kærður fyrir að aka án ökuréttinda. Ökumanninum var sleppt úr haldi lögreglu eftir sýnatöku.
- Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem var með óspektir í húsnæði í Kópavogi. Hann hafði barið í rúður og áreitt fólk. Maðurinn var handtekinn þegar hann hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu um að láta af hegðuninni og fara á brott.
- Maður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var einnig kærður fyrir akstur án gildra ökuréttinda og fyrir að varsla fíkniefni. Við rannsókn málsins kom í ljós að bifreiðinni sem maðurinn ók hafði verið stolið eftir innbrot í heimahús. Maðurinn var vistaður í fangageymslum lögreglu og verður yfirheyrður með morgninum.
Umræða